132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Kaupendur Búnaðarbankans.

[15:17]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þingmaður er strax farinn að draga í land og lítur ekki svo á að það eigi að fyrirskipa Fjármálaeftirlitinu að fara í þessa athugun. Ég vona að hann komi hérna upp einu sinni enn, fyrst það er heimilt samkvæmt þingsköpum, og dragi þá málið algjörlega til baka. Hann yrði maður að meiri ef hann gerði það.

Hvað varðar þessa hluti er náttúrlega margbúið að fara yfir þá og í júní sl. sendi forstjóri þýska bankans út fréttatilkynningu þar sem farið var yfir málið og það allt saman hrakið sem komið hefur fram hjá þessum kennara, Vilhjálmi Bjarnasyni, og það er mitt svar. Aðkoma viðskiptaráðuneytisins er engin að þessu máli í dag. Það er bara einfaldlega þannig og ég er viss um að hv. þingmanni þykir það leitt.

Svo fullyrðir hann að þetta hafi ráðið úrslitum um að þessi hópur varð fyrir valinu í sambandi við sölu á bankanum. Það er nokkuð sem ég get ekki fullyrt að hafi verið. Ég veit að það hafði áhrif en að (Forseti hringir.) það hafi skipt sköpum tel ég ekki hafa verið.