133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

samkeppnisstaða Vestmannaeyja og landsbyggðarinnar.

[14:10]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég veit að það er ekki til neins að elta ólar við misskilning hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar á grein sem ég skrifaði í framhaldi af fræðsluerindi sem ég flutti í Borgarnesi fyrir nokkrum árum. (SigurjÞ: Þú getur reynt það.) Ég held því ekki fram að þetta sé ásetningsbrot af hans hálfu en ég lýsi mikilli meðlíðun vegna skilningsleysis.

Það er mjög mikilvægt í byggðamálum að stefnt sé að jafnræði þegnanna og í öðru lagi að stefnt sé að því að laða fram sem virkast frumkvæði heimamanna sjálfra. Á báðum þessum sviðum ber ríkisvaldið mjög þungar og miklar skyldur. Um það er ekki deilt og það hefur komið fram í þessari umræðu að hér er víðtæk samstaða um það almennt talað og ég fagna því.

Eins og ég sagði áðan þá er í athugun að efna í kaup á nýju skipi. Gjaldskrá er að sjálfsögðu stöðugt í endurskoðun og athugun og hér hafa komið fram mikilvæg sjónarmið einmitt í því efni með tilvísun kostnaðar við akstur á þjóðvegi.

Ég nefndi það líka áðan að stuðningur við skipalyftur er í athugun og það kom frekar fram hjá hæstv. fjármálaráðherra. Ég endurtek líka að það eru rannsóknir í gangi um Bakkafjöru og aðstöðu þar en niðurstöður þar eru ekki komnar. Framlög til byggða og byggðamála hafa verið aukin að undanförnu eins og ég nefndi líka áðan og mér finnst ástæða til að nefna það til að vekja athygli á því, að það eru mjög mörg metnaðarfull verkefni talin upp í nýlegum vaxtarsamningi Vestmannaeyja og Suðurlands sem snerta sérstaklega Vestmannaeyjar. Það fer alls ekki á milli mála að sú leið sem ríkisstjórnin hefur markað að gera þetta í vaxandi mæli í formi vaxtarsamninga, laðar fram framtak, frumkvæði og forustu heimamanna og er mjög vænleg leið til árangurs.