133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[14:31]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra í þessu sambandi út í það sem kemur fram í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar í umræddri nefnd Jóhanns Ársælssonar, þar sem segir að nefndin hafi ekki talið það á sínu verksviði að leggja til úrlausnir á því ófremdarástandi sem ríkir gagnvart áformum um nýjar stóriðjuframkvæmdir í landinu.

Óhætt er að tala um að nú ríki orðið verulegt ófremdarástand í því, þar sem hægt er að hefja framkvæmdir og undirbúning framkvæmda án aðkomu stjórnvalda. Þar skiptir að sjálfsögðu meginmáli að Alþingi búi til verkfæri til að taka þetta til sín þannig að samþykki Alþingis verði að liggja til grundvallar og það verði á valdi og ábyrgð Alþingis hvort, hvar og hvenær ráðist verði í slíkar stórframkvæmdir. Þetta er algjört grundvallaratriði.

Það er fráleit staða sem komin er upp út af frágangi ríkisstjórnarinnar og frægt er hvernig hæstv. iðnaðarráðherra hefur vísað frá sér allri ábyrgð á stóriðjumálum. Stóriðjustefnan er dauð, segir ráðherrann. Þetta er málefni sveitarfélaga og orkufyrirtækja, það er náttúrlega glapræði hvernig er fram gengið í þessum málum. Til að greiða úr þessu ófremdarástandi verður Alþingi að taka þetta vald til sín. Það verður að liggja fyrir sérstakt samþykki Alþingis fyrir hverri einustu framkvæmd. Þess vegna spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra um þetta grundvallaratriði, hvort ekki þurfi að huga að því í leiðinni og við setjum þau lög sem við erum að ræða núna.