141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

skattafsláttur vegna kostnaðar við ferðir til og frá vinnu.

105. mál
[14:27]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um skattafslátt vegna kostnaðar við ferðir til og frá vinnu. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sem talaði áðan er 1. flutningsmaður þessa máls. Sá sem hér stendur er meðflutningsmaður málsins og telur mjög mikilvægt að það nái fram að ganga.

Eins og rakið er í greinargerð með málinu hefur það gerst síðustu ár og áratugi að þéttbýliskjarnar hafa stækkað og samgöngukerfi milli þéttbýliskjarna og atvinnusvæða eru að verða miklu stærri en við þekktum fyrir nokkrum áratugum síðan. Þetta hefur líka gerst í nágrannalöndunum og þar hafa menn gripið til ráðstafana eins og þetta mál gerir ráð fyrir og er það rakið ágætlega í greinargerðinni, m.a. hvernig kerfinu er háttað í Danmörku, Svíþjóð og Noregi þar sem menn fá ákveðna skattafslætti ef þeir eiga um langan veg að fara til vinnu. Á mörgum þeirra svæða er ekki sá möguleiki fyrir hendi að notast við almenningssamgöngur vegna þess að þær eru ekki það skipulegar. Heilt yfir, af því að umræðan áðan var komin út í þjóðhagslegt gildi af slíku, held ég að það séu þjóðhagsleg jákvæð áhrif af aðgerð sem þessari. Við sjáum það til að mynda í þessum nágrannalöndum okkar að aðgerðir sem þessar hafa skilað mjög jákvæðri niðurstöðu og það á ekki síst við úti á landsbyggðinni þar sem ekki er um reglulegar almenningssamgöngur að ræða. Þarna er bara eitt atriði tekið fyrir sem er skattafsláttur vegna aksturs til og frá vinnu.

Í Noregi til að mynda eru menn með fleiri þætti þar sem skattkerfið er notað til jöfnunar, ekki ósvipað og er gert hér til dæmis þegar kemur að rafmagnskostnaði á dreifbýlum svæðum. Fyrirtæki á dreifbýlum svæðum greiða oft og tíðum lægra tryggingagjald eftir því sem komið er lengra út í dreifbýlið og nýleg skýrsla í Noregi sýndi fram á mjög jákvæð áhrif af slíkum aðgerðum, bæði fyrir byggðir landsins og eins sem þjóðhagslega jákvætt fyrir Noreg sem land. Það eru sambærileg kerfi bæði í Svíþjóð og Finnlandi þó framkvæmdin sé ekki komin eins langt.

Það er nefnilega þannig að með svona aðgerðum, þótt ekki fari háar fjárhæðir í þetta, er hægt að liðkað mjög fyrir og það getur oft og tíðum gert það að verkum að atvinnutækifærin nýtast betur á ákveðnum svæðum. Það verða til tekjur sem ellegar hefðu ekki orðið til hjá fyrirtækjum og síðan mynda tekjur fyrir þjóðarbúið.

Það hefur verið kallað mjög mikið eftir tillögum sem þessum. Maður hefur orðið var við það meðal annars hjá Samtökum sveitarfélaga vítt og breitt um landið að kallað hefur verið eftir því að Alþingi kæmi og mótaði tillögur sem sneru að skattafslætti vegna kostnaðar til og frá vinnu og fleiri atriða sem Framsóknarflokkurinn hefur reyndar lagt til að Alþingi taki upp og hefji vinnu við. Því miður hefur það ekki orðið raunin.

Svo ég blandi mér aðeins inn í umræðu sem var hér áðan milli hv. þm. Péturs H. Blöndals og hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar sneri hún að því að þegar skattarnir væru orðnir mjög háir yrði kallað eftir undanþágum eins og þessum eða svona útfærslum á einhverju ívilnunarkerfi. Vissulega getum við tekið undir það að skattarnir hafa hækkað mjög mikið en ég vil meina að þessi aðgerð snúist ekki um það. Hún snýst fremur almennt um umgjörðina í kringum þetta og í kringum þá sem búa á svæðum sem eru dreifbýlli þar sem er um langan veg að fara til vinnu. Þetta snýr ekki eingöngu að því að eldsneytisverð fari hækkandi heldur er þetta stefnumótandi aðgerð, að ráðast í þetta inn í framtíðina. Við höfum séð, og það hefur verið pólitískur vilji til þess hér á Alþingi, skattkerfið notað til einhvers konar jöfnunar. Það hefur verið pólitískur vilji til þess að nota skattkerfið til að færa hinum tekjuminni þjónustu sem þeir hefðu ellegar ekki möguleika á með því að nota skatttekjur. Þarna er verið að leggja til að stigið sé nýtt skref í þessa átt, að nota skattkerfið til jöfnunar með þessum hætti gagnvart þeim sem eiga um langan veg að fara til vinnu. Ég tek það fram að þetta er eitt af fjölmörgum verkefnum sem við í þinginu þurfum að ráðast í. Við þurfum að horfa til nágrannalanda okkar í því samhengi því að við Íslendingar erum þarna mjög langt á eftir samanborið við nágrannaríki okkar. Ég tek undir með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni, ég vona svo sannarlega að þessi þingsályktunartillaga fái góða meðferð og verði afgreidd þannig úr efnahags- og viðskiptanefnd að hún nái fram að ganga fyrir þinglok. Þá má gera ráð fyrir því að ráðherra leggi fram lagafrumvarp á næsta þingi að afloknum kosningum þar sem tekið verði mið af því hvernig þessum þáttum er háttað í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og öðrum nágrannalöndum okkar.