146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

brot ráðherra gegn jafnréttislögum.

[10:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Hvernig ætlar hæstv. jafnréttisráðherra að tryggja það sem hann boðar hér? Ég vil taka undir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þegar hún fjallar um jafnréttismál og segir að jafnrétti í víðtækri merkingu sé órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi. Þetta er satt og rétt. En hvernig ætlar hæstv. jafnréttisráðherra að vinna að því? Brot forsætisráðherra var skýrt. Um var að ræða jafn hæfa einstaklinga og hann braut lögin. Hann hlýtur að hafa vitað það, enda hafði hann fjallað mikið um þau lög í máli sem var reyndar ekki sambærilegt því að þar höfðu einstaklingarnir ekki verið metnir jafn hæfir.

Ég vil spyrja hæstv. jafnréttisráðherra: Hvernig mun hann bregðast við ef þetta gerist aftur í ríkisstjórninni? Ef einhverjum ráðherranum verður það á að brjóta jafnréttislög, mun hann þá grípa til aðgerða (Forseti hringir.) eða krefjast einhvers? Eða er hann bara sáttur við að umrætt ákvæði jafnréttislaganna sé nýtilegt til að beita í pólitískum tilgangi, til að berja á andstæðingum? Eða getum við tryggt að það nýtist til þess m.a. að tryggja jafnrétti í Stjórnarráðinu?