149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

samráð um reglugerð um hvalveiðar.

[14:09]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Hér er verið að spyrja mig um veiðarnar sjálfar. Þær heyra ekki undir mig. Og varðandi það að það sé ekki góð viðskiptahugmynd að stunda slíkar veiðar er því til að svara að stjórnvöld stunda ekki þessar veiðar. Ég ætla ekki að setjast í eitthvert dómarasæti. Ef einhverjum öðrum finnst það góð hugmynd að fara í slíkan rekstur geta þeir gert það. (Gripið fram í.)

Eins og ég nefndi áðan hefur ekki verið sýnt fram á eða einhverjar greiningar komið fram þess efnis að þetta hafi skaðleg áhrif á ferðaþjónustuna í heild sinni. Ég ætla heldur ekki að svara til um hvaða áhrif það hefur þá almennt á lífríki sjávar ef við hættum þessum veiðum, á aðra stofna o.s.frv., enda er ég ekki sérfræðingur í slíku og ber svo sem ekki ábyrgð á þeim málaflokki. Það er sjálfsagt mál að skoða nánar áhrif veiða á ferðaþjónustu, en ýmislegt hefur áhrif á ímynd þjóðar og í landinu er önnur atvinnustarfsemi sem ferðaþjónustan væri líklega til í að við stunduðum ekki, og öfugt. (Forseti hringir.)

Ég segi aftur að þessi ákvörðun er tekin af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á grunni vísindalegrar ráðgjafar og það er það sem skiptir máli hér.

(Forseti (SJS): Forseti vill biðja menn að vera ekki að standa í samtölum í salnum á meðan ræðumenn flytja ræður sínar og allra síst málshefjandi þegar verið er að svara honum.) (Gripið fram í: Hann er fórnarlamb.) [Hlátur í þingsal.]