149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

samningar við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara.

[14:10]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Hæstv. forseti Ég beini fyrirspurn minni að hæstv. heilbrigðisráðherra en mig langar að spyrja um stöðu samninga ríkisins við annars vegar sérgreinalækna og hins vegar sjúkraþjálfara. Eins og ráðherra þekkir auðvitað rann samningur á milli ríkisins og sérgreinalækna út 31. desember sl. en mikilvægi þeirra fyrir heilbrigðiskerfið er vonandi öllum ljóst. Árið 2017 voru komur til sérgreinalækna samkvæmt ársskýrslu Sjúkratrygginga Íslands 477.977.

Það liggur í augum uppi að sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir eru ekki í neinum færum til að taka þetta verkefni yfir. Þetta þarf nefnilega allt að vinna saman. Ég þekki að hæstv. heilbrigðisráðherra vill nálgast málið heildstætt og það er mikilvægt því hagsmunir fólksins, hagsmunir hinna sjúkratryggðu, er það sem er undir. Það eru þeirra hagsmunir sem verða að vera í forgangi og þess vegna er blandað rekstrarform heilbrigðiskerfinu afar mikilvægt. Með því fylgir auðvitað nýsköpun og hraðari framþróun ásamt því að ungir læknar sjá vonandi hag sinn í að koma heim í fjölbreytt vinnuumhverfi þar sem þeir eiga tækifæri á að vinna á mismunandi stöðum til frambúðar.

Þetta vinnur allt saman og því langar mig að spyrja hver samningsmarkmið ríkisins séu varðandi samninga við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara. Hverju ætlar ríkið sér að ná fram í samningunum? Standa raunverulegar samningaviðræður nú yfir? Ef svo er, hvenær er stefnt að því að skrifa undir samninga? Hæstv. ráðherra gaf út reglugerð 28. desember sl. um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Sú reglugerð gildir til 31. mars nk. sem nálgast óðfluga. Sér ráðherra fyrir sér að samningar muni nást fyrir þann tíma?