149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

staða ferðaþjónustunnar.

[14:43]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Ferðaþjónustan er stærsta atvinnugreinin í heiminum, hún hefur verið það lengi og hefur vaxið gríðarlega á Íslandi á undanförnum árum. Í dag koma 40–45% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar frá ferðaþjónustunni. Árið 2017 var hún í fyrsta skipti stærsta atvinnugreinin á Íslandi, 8,6%, þegar sjávarútvegurinn taldi um 8%. Ég vil ekki kannast við tölurnar sem voru nefndar áðan, að hún væri þriðjungur af landsframleiðslu Íslendinga. Ég held að það sé ekki komið svo hátt enn sem komið er.

Ég held að við nýtum ágætlega tækifæri á mörgum sviðum einmitt til að bæta grunninn að svo mörgu í ferðaþjónustunni. Flugið er alltaf grunnurinn að ferðaþjónustunni, þannig hefur það verið og mun verða þar sem 98–99% allra erlendra ferðamanna sem koma til landsins koma fljúgandi og 1–2% með ferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar. Síðan er lítillegt enn sem komið er sem fer um Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll. Það er það sem við horfum mjög svo til, að þar verði bæting á næstu árum, að menn stuðli þar með að betri dreifingu ferðamanna um allt land og styrki flugvellina á Norður- og Austurlandi til að skapa þau skilyrði að hægt sé að dreifa erlendum ferðamönnum betur um landið og yfir allt árið.

Stóra markmiðið er að dreifa betur ferðamönnum um allt Ísland og yfir allar árstíðirnar, alla 12 mánuði ársins. Hér var lengi markaðsátak sem var kallað Ísland allt árið. Það sem ég kallaði alltaf eftir var að orðið Allt kæmi fyrir framan, slagorðið yrði: Allt Ísland allt árið. Það var ekki flóknara hjá mér í þeirri umræðu.

Þetta er sama sagan og venjulega, tvær mínútur eru bara allt of stuttur tími (Gripið fram í.) í sérstakri umræðu. (Gripið fram í: Breyta klukkunni?)