149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Það er eftirtektarvert að þegar nú dregur að lyktum máls sem skiptir íslenska hagsmuni miklu skuli þingsalurinn vera nær tómur, nema hvað hér eru fulltrúar Miðflokksins og einn hugrakkur Sjálfstæðismaður, svo það sé sagt.

Við erum núna að ljúka máli sem gæti verið — og vegna þess að ég sé hér út undan mér annan hv. þingmann í hliðarsal, sem er ekki bara þingmaður heldur líka stórskáld þá gæti sú atburðarás sem við erum núna að ljúka sem best heitið og væri bara prýðisnafn á skáldsögu: Veisla vogunarsjóðanna. Við erum núna að klára þessa veislu og veislustjórinn, hæstv. fjármálaráðherra, hefur setið við mitt borðið, brotið brauðið og skammtað á diskana allt frá árinu 2016, allt frá þeim tíma þegar kúvending var tekin í því máli hvernig gert yrði upp við erlenda vogunarsjóði.

Horfum á þetta í stærðum: Bara síðustu tvö skrefin sem stigin hafa verið, þ.e. skrefið sem var stigið í ársbyrjun 2017 þegar 100 milljörðum kr. var sleppt úr landi á genginu 137,5 kr. fyrir evru — þá var skráð gengi evru hér á markaði um 110 kr., ef ég man rétt, þannig að þar var u.þ.b. 11% af mismunur á því verði evru sem menn fóru með út miðað við skráð gengi — munaði okkur, þ.e. þjóðina, 13 milljörðum, einhvers staðar á því bili. Aftur á móti ef við miðum við 190 kr., sem var næsta útboð þar á undan, erum við að tala um allt aðrar og miklu stærri tölur.

Nú í dag er verið að verðlauna þá sem unnið hafa störukeppnina, sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nefndi svo fyrir tæpum tveimur árum síðan. Þeir sem eru búnir að vinna störukeppnina eru núna að ganga í burtu með 83 milljarða kr. á genginu 136,5 sem er það sama og maður á leið til Spánar fær til að kaupa sér gjaldeyri fyrir og fara með í sumarfríið. 83 milljarðar kr. á 136,5.

Ef menn hefðu haft döngun í sér til þess að gera nú ekki meira en í fyrra og hafa þessi 11% ofan á því sem skráð gengi er í dag, hefði það styrkt þjóðarbúið. Við Íslendingar hefðum fengið út úr þessum síðasta skammti, þessum eftirrétti vogunarsjóðanna, 11–15 milljarða. Mönnum finnst það kannski smotterí en þá minni ég á að þær arfaslöku aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti fyrir nokkrum dögum síðan til lausnar kjarasamningum voru verðlagðar á 18 milljarða. Það er þörf fyrir svona upphæðir. Við getum alveg notað þessar upphæðir, þjóðin. En nei, það á ekki að vera svo í þessu tilfelli. Það á að verðlauna vogunarsjóðina fyrir þeirra þjónustu við land og þjóð, ef svo má að orði komast, eða hitt þó heldur.

Það er satt að segja alveg makalaus viðsnúningur sem varð eftir mitt ár 2016 þar sem íslenska þjóðin og íslenska ríkið höfðu verið í sókn gegn vogunarsjóðum undir stjórn hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem þá var hæstv. forsætisráðherra. Á mjög skammri stundu breyttist þessi sókn í skipulagt undanhald og ríkisstjórnin sem þá tók við stundaði skipulagt undanhald þangað til í fyrra þegar óskipulagður flótti brast á liðið.

Allt þetta gerðu vogunarsjóðsstjórnendur sér ljóst strax á árinu 2016, að nú væri ekki sama fyrirstaða og var. Nú gætu menn gengið um íslenskan ríkissjóð eins og að ganga inn í kaupfélag og afgreitt sig sjálfir á því verði sem þeim hentaði. Þetta er það sem er að kristallast hér í dag. Það er með ólíkindum, frú forseti, að menn bjóði þinginu upp á að færa þetta mál hér inn í dag og ætlast til þess að það verði á tveim fundum í dag gert að lögum. Það á að gera Alþingi Íslendinga í dag að ómerkilegum stimpilpúða fyrir fjármálaráðherra, veislustjóra vogunarsjóðanna. Og það er eins og allir sætti sig við þetta. Það er ekki áhugi á því hjá hv. þingmönnum að ræða þetta mál, hann er ekki til. Það er ekki áhugi hjá hv. þingmönnum að sitja við umræðuna og fylgjast með henni. Hann er ekki til. Það er eins og menn hafi sætt sig við það fyrir löngu, eða nokkru, að hér skuli leyft að vogunarsjóðir gangi í burtu með 83 milljarða kr. á gengi dagsins.

Þetta er svo snautlegt, þetta er svo smánarlegt og þetta skiptir okkur svo miklu máli að mér finnst það þyngra en tárum taki að enginn skuli sýna þessu máli áhuga nema þingmenn Miðflokksins. En það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem sá hópur hefur staðið í stefni þegar gefur á og látið sér ekki bregða við. En það er eins og aðrir séu allir flúnir undir þiljar og lagstir í koju.

Það sem skiptir öllu máli í þessu sambandi er það að ekki einungis er nú verið að ganga í burtu með 83 milljarða kr., sem er það sem menn kalla að ljúka við snjóhengjuna, heldur hefur komið í ljós, frú forseti, í svörum fjármálaráðherra við fyrirspurnum þess sem hér stendur í tvígang, árið 2015 og 2018, að hingað hefur streymt inn á hverju ári nýtt kvikt áhættufé. Maður hlýtur að spyrja sig eftir þessar trakteringar: Hvað ætlast þeir til sem hingað hafa hellt inn áhættufé á hverju ári, keypt hér ríkisskuldabréf og aðrar eignir? Sjá þeir glitta í það að eftir tvö ár eða svo verði þeim „hleypt út“ héðan með þessar eignir sínar á töluvert hærra verði? Fyrir utan það náttúrlega að peningarnir hafa verið í vöggu vaxta, sem er óþekkt. Og halda menn að það muni nú ekki einhvern um — ég gæti nefnt bara Svíþjóð, England, hvar sem er, þar sem stýrivextir eru núll eða undir núlli, þar sem vaxtastig er mjög lágt — að koma hingað í 6,5% vexti? Ég vitna í það sem hæstv. ráðherra einn sagði fyrir allmörgum árum, reyndar fyrir hrun: Sjáið þið ekki veisluna, drengir?

En hrægammarnir sjá veisluna og þeir þyrpast hingað. Þeir kaupa hér bæði verðbréf, hlutabréf og skuldabréf og hagnast vel. Auðvitað vita þessir menn, þeir hafa á sínum snærum öflugt lið lögfræðinga og alls kyns hjálparmanna, hvers þeir geta vænst með því að koma hér meðan núverandi stjórn situr að völdum. Þeir geta komið inn og hagað sér eins og maður sem fer inn í kaupfélag og afgreiðir sig sjálfur og ákveður verðið sjálfur. Þetta vita menn.

Maður óttast þessa sífelldu eftirgjöf við erlent vald sem skaut upp kollinum árið 2009 þegar menn voru hér hálfbuxnalausir og hræddir. Þá var m.a. ákveðið söluverð á hlut ríkisins í Arion banka, sem varð að veruleika í fyrra á verði frá 2009. Það er þessi sama undanlátssemi sem varð til þess í fyrra að íslenska ríkið treysti sér ekki til þess að yfirtaka Arion banka, minnka í honum eigið fé, Íslandi til heilla, og selja hann síðan. Það hefði verið hægur vandi að gera en menn gerðu það ekki.

Hvað er búið að gerast síðan? Jú, þeir sem keyptu þennan banka eða eignuðust hann við þennan gjörning, eru í tvígang búnir að greiða sér út 10 milljarða kr. í arð, 20 milljarðar sem hefðu sem best geta farið í ríkissjóð en fara þess í stað í vogunarsjóð. Þetta eru 20 milljarðar af banka sem var metinn á 120 milljarða, ef ég man rétt, í þessum viðskiptum.

Hvað er búið að gera líka? Það er búið að setja eina af stærstu eignum þessa banka í söluferli, þ.e. hlut bankans í Valitor sem er verðlagður í bókum bankans á u.þ.b. 17 milljarða kr. En það myndi koma mér mjög á óvart ef söluverð þessa hlutar verður mikið undir 70 milljörðum kr. Hvað er þá búið að gerast? Á u.þ.b. ári eru þeir aðilar sem eignuðust þennan banka á gjafvirði búnir að taka til sín um 70 milljarða af þeim 120 sem þeir „borguðu“ fyrir bankann. 70 milljarða á einu ári.

Ég gæti alveg trúað því að í þessum nýja eigendahópi Arion banka sé að finna góðkunningja okkar Íslendinga sem eru líka þátttakendur í því að flytja nú út 83 milljarða kr. á gengi dagsins. Ef þetta mál gengur alla leið í dag, sem ég vona nú sannarlega að það geri ekki en ef það gerist, verður skálað í kampavíni bæði vestur í Ameríku og í London væntanlega í kauphöllinni. Það verður skálað fyrir heimsku og vanmætti Íslendinga sem hafa gert það kleift að menn gangi héðan út með þetta fé, langt undir því sem þeir hefðu átt að greiða til að fara héðan út.

Það er satt að segja bæði dapurlegt og snúið að sjá þetta í ljósi þess að stefnan sem tekin var árið 2013, fyrir sex árum síðan, virkaði ótrúlega vel eins og dæmin sanna og er stærsta skrefið í þá átt að viðsnúningur efnahagsmála á Íslandi varð með þeim hætti sem allir þekkja. Annar eins viðsnúningur hefur aldrei sést nokkurs staðar á jafn skömmum tíma. En menn heykjast á því að halda þessari baráttu áfram.

Þess vegna stöndum við hér Miðflokksmenn einir og ræðum þetta mál sem skiptir okkur Íslendinga verulegu máli, ekki bara núna, ekki bara í þetta skipti, því að hópur harðsnúinna fjármálamanna úti í heimi veit að stjórnvöld á Íslandi láta flest yfir sig ganga. Þau kyngja úr hvaða kaleik sem er. Á hvers kostnað? Á kostnað íslensku þjóðarinnar. Ég fullyrði það og það sér hver maður á þeim 100 milljörðum sem fóru héðan út í fyrra á genginu 137,5 kr. en hefðu getað farið út á 190. Munurinn þarna á milli er í kringum 23–25 milljarðar. Hvaða upphæð er það? Hún er u.þ.b. áætlaður afgangur af fjárlögum Íslands fyrir árið 2019.

Nú skulu menn gá að því að það var ekki hægt að láta 1,1 milljarð til öryrkja í fjárlagafrumvarpinu. Það var ekki hægt að láta 250 millj. kr. renna til heimaþjónustu. Það var ekki hægt að efla löggæslu. Það var ekki hægt að ganga þannig frá málum að aldraðir einstaklingar gætu unnið sér inn aukagetu. Þetta var ekki hægt. Það voru ekki til peningar. Afgangur á íslensku fjárlögunum, 29 milljarðar, var allt of lítill að sögn fjármálaráðherra, veislustjóra vogunarsjóðanna. En það er hins vegar hægt að hleypa vogunarsjóðunum út með 83 milljarða kr. á gengi dagsins. Það stendur ekki í mönnum sem meira að segja ætlast til þess að við afgreiðum þetta á nokkrum klukkutímum eins og ekkert sé sjálfsagðara. Hin málin var ekki hægt að klára.

Það er ekki hægt að koma fram með almennilega skattatillögur til að reyna að leggja lóð á vog þeirra sem lægst eru launaðir, til að hægt sé að aðstoða atvinnulífið, sem er hart keyrt, til þess að geta staðið undir launahækkunum sem um semst. Það er ekki hægt. En það er hægt að hleypa vogunarsjóðunum út með 83 milljarða á gengi dagsins. Þetta er óskiljanleg forgangsröðun með öllu, frú forseti. Hún er í sjálfu sér af þeirri stærðargráðu að hún er eiginlega þeim sem að þessu standa til ævarandi vansa og skammar. Ég hygg að þessi dagur verði alllengi í minnum hafður vegna þeirra vonbrigða sem við verðum fyrir í dag, vegna þess vanmáttar sem íslensk stjórnvöld sýna, vegna þess undirlægjuháttar sem íslensk stjórnvöld sýna í átökum sínum eða samskiptum sínum við erlent fjármálavald. Dagurinn verður væntanlega líka lengi í minnum hafður vegna þess að þetta er dagurinn þegar þingheimur var ekki hér, nema Miðflokkurinn. Þetta er dagurinn þegar aðrir þingmenn voru staddir annaðhvort úti í mötuneyti að raða í sig kökum eða úti í bæ einhvers staðar að sinna einhverjum erindum eða á skrifstofum sínum. Kannski hafa einhverjir lagt sig. En þeir eru ekki hér, enginn nema þingmenn Miðflokksins. Það hefur að því er virðist enginn áhuga á því og áhyggjur af því af hvaða stærðargráðu þetta mál er og hversu stórir hagsmunir eru í húfi fyrir íslensku þjóðina. Það virðist enginn hafa áhuga eða áhyggjur af því. Það er líkt og hér sé bara til nóg af peningum í ríkissjóði, alveg skítnóg, þó að við getum ekki gert upp við öryrkja og þó að við getum ekki liðkað til fyrir kjarasamningum og þó að við getum ekki leyft öldruðum að vinna sér inn smávegis inn. Það er hjóm eitt. En við erum alveg til í að klappa öllum vogunarsjóðum á öxlina og öllum Shylockum heimsins. Við erum til í að gera samning við þá alla, stendur ekki á okkur að gera það.

Frú forseti. Ég ítreka það að þessi dagur er í sjálfu sér dagur sorgar, dagur vonbrigða. Hann er dagurinn þegar íslensk stjórnvöld beygðu sig svo í hnjánum gegn erlendu valdi að það mun lengi verða í minnum haft.

Ég vildi óska þess að þingheimur, í stað þess að vera einhvers staðar annars staðar en í þingsal að taka þátt í þessum umræðum, tæki sig saman, allir þingmenn sem einn, og ýtti þessu máli frá sér. Það liggur ekkert á. Það er ekkert sem ýtir á nema kannski einhverjir hagsmunir vogunarsjóða sem okkur Miðflokksmönnum er ekkert sárt um að séu fyrir borð bornir að sinni. Okkur veitir ekkert af því að fá út úr þessu hruni endurgreiðslu á þeim skaða sem við Íslendingar urðum fyrir. Það er ekki að gerast með þessu frumvarpi.