149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:00]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Þó að hann hafi spurt hennar hér fyrr í dag þá þykir mér ágætt að hún komi fram aftur. Mér var nú rétt áðan bent á það sem ég hafði ekki tekið eftir í fyrstu yfirferð minni um nefndarálitið, en þar segir, með leyfi forseta, í tengslum við dagsetninguna 26. febrúar sem er í dag:

„Í umsögn til nefndarinnar undirstrikar Seðlabankinn mikilvægi þess að afgreiðsla frumvarpsins liggi fyrir áður en gjalddagi tiltekins flokks ríkisbréfa rennur upp 26. febrúar næstkomandi.“

Hér er ítrekað mikilvægi þess að afgreiðsla frumvarpsins liggi fyrir áður en gjalddagi tiltekins flokks, sem er í dag, rennur upp. Seðlabankinn er sem sagt að segja að himinn og jörð muni bókstaflega farast ef þetta verði ekki afgreitt í gær. Ekki í dag — nei, í gær. Ég veit ekki til þess að neitt hafi gerst í dag sem bendir til þess að fjárfestar hafi farið á taugum þegar þeir áttuðu sig á því að þetta mál hefði ekki verið klárað í gær. Þetta heldur engu vatni, þessi tímapressa, og það er einhvern veginn lygilegt að horfa á það hér — ef ríkisstjórnin tekur trúanleg þessi varúðarorð Seðlabankans, um mikilvægi þess að afgreiðsla frumvarpsins liggi fyrir áður en gjalddaginn, í dag, rennur upp — að þetta skuli þá hafa verið sett á dagskrá í dag. Þetta er alveg óskiljanlegt. Eins og sagt var í einhverju samhengi, og ég vona að forseti skammi mig ekki fyrir það: „You can't make this shit up“.