150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

áhrif Covid-19 á atvinnulífið.

[10:30]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að hrósa almannavarnateyminu og heilbrigðisstarfsfólki sem staðið hefur í ströngu við að útbúa og framfylgja viðbúnaði vegna Covid-19 veirunnar. Það er mikilvægt að við höldum ró okkar og gerum yfirvöldum kleift að framfylgja aðgerðum sem miða að því að verja þá sem eru í áhættu vegna veirunnar, dreifa álagi og tryggja að innviðir okkar ráði við ástandið. Afleiðingar gætu orðið alvarlegar fyrir hagkerfið og mikilvægt að við stöndum öll saman um að takast á við þær. Við verðum þó að ræða þær aðstæður sem veiran er þegar farin að skapa einstaklingum og einstökum fyrirtækjum. Það er auðvitað gott að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld séu í viðræðum um réttindi fólks í sóttkví og það er lykilatriði að fólk þurfi ekki að óttast um afkomu sína. Forsætisráðherra talaði um blandaða leið í fréttum í gær og því væri gott ef hæstv. ráðherra gæti skýrt aðeins hvernig útfærslan er hugsuð.

Síðan er önnur hlið á þessum peningi, þau áhrif sem sóttkví getur haft á rekstur fyrirtækja, einkum lítilla og meðalstórra. Ég hef áhyggjur af þeim, sérstaklega í ljósi vaxandi atvinnuleysis. Lítil fyrirtæki með átta starfsmenn missa t.d. tvo heila mannmánuði ef starfsmenn þurfa að fara í sóttkví. Jafnvel þótt þau þurfi ekki að bera launakostnaðinn geta fyrirtæki orðið fyrir verulegu verðmætatapi vegna skertrar framleiðslu. Þetta gerist á sama tíma og hagkerfið okkar er að kólna allhressilega. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort ríkisstjórnin hafi velt þessum hlutum fyrir sér og hvort hún hafi rætt mögulegar aðgerðir og ívilnanir fyrir slík fyrirtæki sem verða fyrir mestum áhrifum.