150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

samræmd viðbrögð ríkja við fólksflutningum.

[11:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Skil ég þá rétt að hæstv. utanríkisráðherra láti sig ekki varða þennan málaflokk yfir höfuð? Ég verð að viðurkenna það að þótt málaflokkurinn geti tilheyrt öðrum ráðherra þá hlýtur utanríkisráðherra að hafa hlutverk að spila í því að koma á einhverjum sameiginlegum skilningi milli Evrópuríkja um það hvernig eigi að taka á vanda sem þessum, þar sem þarf að samstilla aðgerðir ríkja og ríki þurfa að koma sér saman um það hvað þau ætla að gera saman til að bregðast við vandanum. Ég furða mig því svolítið á svari hæstv. ráðherra. Ég skil mætavel að þessi málaflokkur, eins og hann kallar það, tilheyri öðrum ráðherra, en mér finnst samt að utanríkisþjónustan og hæstv. utanríkisráðherra ættu að hafa einhvern metnað í þessu máli. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra væri til í að taka meiri ábyrgð á málinu og blanda sínum störfum meira inn í það.