150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

breyting á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar.

332. mál
[12:00]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég styð að sjálfsögðu þetta frumvarp sem við höfum farið mjög vel yfir í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Ég fullvissa hv. þm. Guðmund Inga Kristinsson um að regluverkið er til staðar. Það sem verið er að gera hér er að einfalda regluverk og taka af reglur sem settar voru áður en við vorum komin með reglur sem tóku almennt á neytendavernd eins og gert er í dag. Hér erum við bara að horfa til Norðurlandanna sem við miðum okkur gjarnan við og hafa sambærilegt regluverk og þar. Hérna erum við raunverulega að greiða atkvæði um einföldun regluverks, hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson. (ÞorS: Nei.) Það er bara ágætt að fá fram að ekki allir þingmenn í þessum sal styðja það. Miðflokkurinn sker sig sérstaklega úr og það er mjög áhugavert.