150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

íslensk landshöfuðlén.

612. mál
[13:01]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðasta atriðið og reyndar að nokkru leyti umfjöllunarefni hv. þingmanns held ég að það sé einmitt vel til þess fallið að um það sé fjallað í nefndinni og öll þessi sjónarmið tekin fram og reifuð, vegin og metin. Vegna þess að hv. þingmaður hefur lagt mikið upp úr því að þessar reglur væru hugsanlega íþyngjandi við ýmislegt sem hann telur mega breyta í almennum hegningarlögum má spyrja á móti hvort hv. þingmaður sé ekki þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að til sé lagarammi til að takast á við alvarlegustu brotin sem til eru. Slíkur lagarammi er ekki tiltækur og við erum að reyna að setja öryggissjónarmið um það, einmitt til að bregðast við hryðjuverkum eða skipulagðri glæpastarfsemi sem ég held að við viljum öll geta tekist á við. Það eru vangaveltur sem hlutu að koma upp líka og fyrir þá sem aðhyllast frelsi — ég veit að hv. þingmaður er svolítið á þeirri línu að aðhyllast minni lög og minni reglur — (Gripið fram í.) er það mín skoðun að ekki sé neitt frelsi til án ábyrgðar og að í þeirri ábyrgð felist mjög oft að það þurfi að setja einhverjar reglur til að takast á við alvarlegustu málin og treysta síðan á dómstóla sem er þriðja stoð stjórnarskrár okkar, starfa vissulega sjálfstætt og við höfum ekki stjórn á, og treysta því að þeir dæmi af sanngirni og eftir þeim lögum sem við setjum.