150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:44]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég held líka að við séum á réttri leið og ég held reyndar að mannkynið sé á margan hátt á réttri leið. En við getum samt sem áður gert betur. Ég átta mig á því að það segir ekki í skýrslunni að hér sé allt í lagi og ég hrósa hæstv. ráðherra aftur fyrir skýrsluna ef það hefur verið óljóst. Við erum að gera svo fjöldamarga góða hluti á svo mörgum sviðum, líka í loftslagsmálum, jafnrétti og ýmsu öðru, eins og hæstv. ráðherra kom inn á. Við höfum góða sögu að segja, eins og hann sagði orðrétt, en við þurfum að draga hana saman og segja öðrum hana. Ég er fyrst og fremst að kalla eftir því að við búum til formfastara plagg, stefnu sem er aðgengileg þegar maður fer inn á vef utanríkisráðuneytisins. Ég held að við hefðum öll gott af slíkri vinnu. Hins vegar er það alveg ljóst, eftir framsögu á nefndaráliti hér í morgun, um innleiðingu okkar á alþjóðlegum skuldbindingum vegna Parísarsáttmálans, að við eigum ýmislegt órætt og skoðanir eru mjög skiptar á því hvert fólk eigi að halda og ætli að halda. Ég held að við eigum kinnroðalaust að þora að taka þá umræðu vegna þess að ég trúi því og veit að það er stór meiri hluti hér í þinginu þvert á flokka sem vill stefna í sömu átt þegar að þessum málum kemur. Ég hef sagt það ítrekað hér að sennilega er besta útflutningsvara Íslendinga frammistaðan á sviði mannréttinda, jafnréttis og ýmissa þátta. Við getum stolt haldið því á lofti en drögum það endilega saman í skýra og formfasta stefnu.