150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:50]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu. Mér finnst gott að við séum að ræða mannréttindamál hér á þingi, að við séum að ræða utanríkismál. Mér finnst allt of lítið um þessi mikilvægu mál rætt hér þannig að ég fagna því að þetta mál hafi verið tekið til umræðu og að þessi skýrsla hafi verið lögð fram af hæstv. utanríkisráðherra. Ég reyndi að koma því að í andsvörum við hæstv. ráðherra að mér finnst að við þurfum líka, þegar við ræðum um mannréttindavernd og þegar við tökum að okkur það hlutverk að sitja í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, að líta í eigin barm og telja okkur ekki hafin yfir gagnrýni. Við þurfum að skoða hvort það sem við höldum fram sé meira en bara orð heldur fylgi líka aðgerðir og að aðgerðir okkar séu í samræmi við það sem við leggjum að öðrum þjóðum að þær eigi að bæta hjá sér. Ég verð að viðurkenna að mér fannst hæstv. utanríkisráðherra helst til viðkvæmur og kannski hörundsár gagnvart spurningum mínum áðan, í andsvörum við hæstv. ráðherra, og ég skildi hann eiginlega ekki öðruvísi en svo að fyrst að við værum með málin í þokkalega góðu lagi hér ættum við ekki að ræða það sem mætti bæta. En þessi afstaða mín breyttist reyndar talsvert eftir að hæstv. utanríkisráðherra átti samtal við hv. þm. Loga Einarsson áðan þar sem hann viðurkenndi að vissulega værum við ekki hafin yfir gagnrýni þegar kemur að þessum málaflokki.

Það er í þessu ljósi, virðulegur forseti, sem ég lagði fram mitt andsvar til hæstv. utanríkisráðherra og leitaðist eftir því að fá svör við því hvernig það samrýmist okkar gildum og okkar helstu áherslum í utanríkismálum, m.a. um vernd barna gegn ofbeldi, að senda fimm barnafjölskyldur til Grikklands eins og ástandið er þar akkúrat núna. Fimm barnafjölskyldur á flótta. Hvernig samrýmist það okkar gildum? Það var mín spurning til hæstv. utanríkisráðherra. En ég fékk ekki svör við þeirri spurningu, því miður.

Mér leikur líka hugur á að vita hvernig það samrýmist okkar gildum að senda transstrák úr landi þrátt fyrir að við hreykjum okkur af því hvað við höfum góða umgjörð um réttindi transbarna hér og að það sé eitt af okkar áherslumálum. Samt sem áður er transdreng vísað úr landi í óvissar aðstæður.

Hæstv. utanríkisráðherra talaði um að við værum í fararbroddi þegar kemur að mannréttindavernd og ég get alveg tekið undir það. Við stöndum okkur mjög vel í samanburði við aðrar þjóðir en eins og hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna þurfum við að gera mjög ríkar kröfur til aðildarríkja mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Þær hljóta líka að felast í því að við lítum í eigin barm og skoðum hvað megi betur fara hjá okkur og reynum að gera sífellt betur.

Ég má til með að nefna hér atriði sem hefur verið í ólagi á Íslandi í allt of langan tíma. Það eru réttindi fólks með geðsjúkdóma og geðfötlun. Við höfum fengið ábendingar frá Evrópuráðinu, frá Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða annarri vanvirðandi meðferð eða refsingu, frá árinu 1993 um að lög okkar innihaldi lagalega mismunun gagnvart fólki með geðsjúkdóma. Þessu var ekki kippt í liðinn og er ekki búið að kippa í liðinn en er á leiðinni eftir að Alþingi samþykkti þingsályktun frá mér um að setja skuli á fót þingmannanefnd sem gangi í það að endurskoða lögræðislögin og önnur lög þar sem fyrirskipað er um beitingu þvingana í geðheilbrigðiskerfinu. Þetta er mikilvægt mannréttindamál sem við höfum trassað síðan 1993. Það er töluvert langur tími til að hunsa ábendingar og tilmæli frá vinum okkar í Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða annarri vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þetta er bara eitt atriði sem mér finnst mjög mikilvægt að koma inn á í því sem við þurfum að bæta hjá okkur og það er að halda utan um réttindi fatlaðs fólks, réttindi fólks með geðsjúkdóma. Því hefur verið mjög illa sinnt af okkar hálfu. Það hefur beðið, það hefur setið á hakanum, löngu kominn tími á að laga það. Það er ánægjulegt að sú vinna er í gangi núna en það þýðir samt sem áður að við erum ekki hafin yfir gagnrýni hvað þennan málaflokk varðar.

Virðulegur forseti. Ég má til með að minnast á þá staðreynd að við höfum fulltrúa í barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, lögðum í ærinn kostnað og kosningabaráttu og ýmislegt fleira, en heimilum ekki íslenskum borgurum að leita til þessarar sömu nefndar telji þeir brotið á réttindum sínum samkvæmt samningi. Þetta er eitt af því sem ég er að vísa til þegar ég tala um að við þurfum að ganga fram með góðu fordæmi og líta í eigin barm og bæta úr hjá okkur sjálfum. Við þurfum að horfa á þetta misræmi, að við sendum fulltrúa sem ætlar að úrskurða um önnur ríki en okkur sjálf, hvort þau gerist brotleg við barnaréttarsamning Sameinuðu þjóðanna, en ætlum ekki að leyfa okkar eigin börnum að leita þangað eftir réttlæti.

Þetta er það sem ég vildi sagt hafa um þessi helstu atriði en ég má líka til með að nefna Evrópuráðið vegna þess að þar er okkar skýrustu leiðbeiningar um mannréttindavernd að finna og líka í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu. Ég fagna því að við höfum átt sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, mér fannst það afskaplega ánægjulegt. Ég var mjög glöð með aðgerðir okkar gagnvart Sádi-Arabíu og gagnvart Filippseyjum og mér fannst það mjög ánægjuleg nálgun líka að tala loksins hreint út um það sem miður fór hjá þeim. Ég vil þó segja að við eigum ekki að halda okkur við sama standard og Sádi-Arabía, bera okkur saman við það land og segja að þess vegna sé allt í góðu lagi hjá okkur. En þannig finnst mér málflutningurinn einhvern veginn vera sem ég heyri í vörnum hæstv. utanríkisráðherra við spurningum mínum. Þótt við höfum það auðvitað töluvert betra þegar kemur að mannréttindavernd en þegnar í Sádi-Arabíu eða á Filippseyjum þýðir það ekki að við þurfum ekki að bæta úr hér heima fyrir.

Fyrst við erum að tala um mannréttindavernd má ég til með að vísa í það að hér hefur verið sett lögbann á umfjöllun fjölmiðla rétt fyrir kosningar sem dómstóll hefur úrskurðað um að hafi haft áhrif á þær kosningar eða hafi verið líklegt til þess. Hér höfum við upplifað að þjóðaratkvæðagreiðsla hefur verið virt að vettugi þegar kemur að stjórnarskrá lýðveldisins og hér höfum við séð það líka að sjálfstæði dómstóla á Íslandi hefur verið dregið í efa af Mannréttindadómstóli Evrópu. Viðbrögðin við þeim áfellisdómi hjá ríkisstjórninni voru að mínu mati að draga úr trúverðugleika Mannréttindadómstóls Evrópu. Ég tel það ekki ásættanlegt fyrir ríki sem vill vera leiðandi í mannréttindavernd að leggjast í sama málflutning og ríki sem helst vilja ganga úr Evrópuráðinu. Eigum við að ganga fram með góðu fordæmi þá legg ég til að við næstu atrennu, þegar niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu liggur fyrir í Landsréttarmálinu, gæti ráðherrar þessarar ríkisstjórnar hófs í málflutningi sínum, hver sem niðurstaða dómstólsins verður.