150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í hverju tilviki þarf að meta það hvað sannleiksgildið varðar, sagði hv. þingmaður. Tökum þá fyrir eitt tilvik sem voru ummæli hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur sem fóru fyrir siðanefnd. Ekki mátti meta sannleiksgildi þeirra ummæla þrátt fyrir að, eins og hv. þingmaður sagði, í hverju tilvik eigi að meta það. Það getur vel verið að slík ummæli metist sönn eða ekki eða þar fram eftir götunum, en það hlýtur að vera fyrsti útgangspurnkturinn að meta a.m.k. hvort ummælin séu sönn eða ekki og þá hvort hægt sé að meta hvort þau teljist brot á siðareglum, eins og er í þessu tilviki, eða ekki. Ef ekki má einu sinni meta sannleiksgildi orðanna erum við komin út á mjög hálan ís. Það að segja satt í öllum tilvikum getur þá verið brot á siðareglum og getur verið brot á tjáningarfrelsi í þessu tilviki brot á tjáningarfrelsi þingmanna.

Mig langar að spyrja í þessu ákveðna tilviki: Ef við ætlum að horfa til mannréttinda og tjáningarfrelsis þingmanna, sem á að vera mjög vítt, eins og hv. þingmaður minntist á áðan, bæði almennt en sérstaklega vítt hvað varðar tjáningarfrelsi þingmanna, hvernig er þá hægt að sneiða hjá því að meta hvort ummælin standist sannleiksgildi eða ekki?