150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:31]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka forseta sérstaklega fyrir að leyfa mér að koma og ljúka þessari umræðu. Ég ætla einnig að nota tækifærið og þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni kærlega fyrir og ég tek undir það með síðasta hv. þingmanni að mér finnst skilaboðin vera mjög skýr. Mér finnst, með einstaka undantekningum sem ég ætla ekki að fara út í, að góð samstaða sé um starfsemi okkar í ráðinu og það er grundvallaratriði. Án þess að ég ætli að fara inn í einstök mál sem verið hafa í umræðunni, sem kannski tengjast þessu ekki beint, hef ég á fundum mínum aldrei heyrt þá gagnrýni sem hefur komið fram hér á mannréttindamál okkar. Ég hef bara heyrt hana í þessum sal, að gagnrýninni hvað varðar mannréttindastofnun undanskilinni — við komumst nefnilega ekki hjá jafningjarýni frekar en aðrir og munum auðvitað halda áfram, næst er það 2021, að taka það mjög alvarlega og það mál er í farvegi. Það vantar ekki pólitískan vilja hjá okkur, heldur snýst þetta fyrst og fremst um útfærsluna á því. Ég hef ekki hitt neinn aðila, þar sem þessi mál hefur borið á góma, sem hefur ekki farið yfir það að við Íslendingar séum í fremstu röð þegar kemur að mannréttindamálum. Ég hef aldrei hitt neinn mann sem hefur talað með öðrum hætti og því vekur það nokkra furðu að heyra hvernig sumir tala hér. Þó svo að við séum öll meðvituð um að við höfum ekki náð fullkomnun, og langt sé í það og alltaf sé hægt að gera betur og vera gagnrýnin á okkur sjálf, verður sú umræða að vera í einhverju samræmi við þann raunveruleika sem við búum við.

Virðulegi forseti. Mér þótti vænt um að heyra hlý orð í garð starfsfólks utanríkisþjónustunnar og það er gott að þingmenn meti störf þess. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. utanríkismálanefnd sérstaklega fyrir samstarfið í þessu máli. Slík mál eru þannig að eðlilega eru þingmenn í utanríkismálanefnd ekki alltaf sammála enda engin ástæða til. Það er ekkert sem kallar á það. En hins vegar hefur umræðan, sérstaklega í þessu máli, alla jafnan verið málefnaleg og bara nokkuð almenn og góð og við í utanríkisráðuneytinu höfum fengið góðar ábendingar og góðan stuðning. Ég vil sömuleiðis þakka hv. þingmönnum sem hér hafa þakkað fyrir okkar störf. Bara svo að það sé sagt, svo að það fari ekkert á milli mála, eigum við mjög gott samstarf við öll Norðurlöndin, það er þétt og náið samstarf, og þegar kemur að hugsanlegri setu okkar í framhaldinu eru allir slíkir hlutir unnir í mjög góðri samvinnu og sátt á milli allra annarra fulltrúa á öðrum Norðurlöndum og hefur engan skugga borið þar á og ekkert sem bendir til þess að það muni verða.

Að endingu vil ég segja að það sem hefur vakið mig hvað mest til umhugsunar þegar kemur að þessari vinnu, setu okkar í ráðinu, eru viðbrögð annarra landa. Þau hafa haft mikil áhrif á mig, sérstaklega þeirra landa sem við berum okkur saman við, hvatning þeirra og sömuleiðis þakkir fyrir framgöngu okkar. Við gerum auðvitað ekkert í þessu ein, heldur vinnum við hlutina í góðri samvinnu við þau ríki. Við höfum með skipulegum hætti verið í samskiptum við mannréttindasamtök sem sömuleiðis hafa hvatt okkur áfram og vakið athygli á því sem þau telja að við höfum gert vel og það er mjög mikilvægt. En það er nú samt þannig í lífinu að það sem hafði mest áhrif á mig, og kom m.a. til umræðu, eru þeir einstaklingar sem hafa orðið fyrir mannréttindabrotum og vísa ég þá sérstaklega til tveggja kvenna sem komu til landsins, annars vegar blaðamaður frá Filippseyjum og hins vegar lögfræðingur frá Sádi-Arabíu sem eru, getum við sagt, á vettvangi og þekkja málin mjög vel af eigin raun. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir nefndi það sérstaklega þegar þetta fólk leggur á sig að koma til Íslands til að vekja athygli almennings og þings og þjóðar á því hvað við gerum, hvað það skiptir miklu máli. Í þessu tilviki átti ég fund með þeim konum þar sem þær sögðu þetta beint við mig og það hafði mikil áhrif á mig og segir okkur það, sem við vitum, að framlag okkar hefur skipt máli og hefur gert það með beinum hætti eins og komið hefur fram. Það hlýtur að verða okkur hvatning til að halda áfram á sömu braut.

Virðulegi forseti. Margt í stjórnmálunum er þannig að við munum vonandi deila um það um alla framtíð. En það er gott að geta náð samstöðu um ákveðna þætti, sérstaklega þegar kemur að utanríkisstefnu okkar. Ég gat ekki heyrt annað en góðan samhljóm milli þingmanna úr öllum flokkum, eða í það minnsta flestum, alla vega næstum öllum, um framgöngu okkar í ráðinu og áherslu á að við höldum áfram að starfa með þeim hætti sem gert hefur verið. Það er okkur mikilvægt veganesti og við skulum líka hafa í huga að þetta snýr ekki að einum stjórnmálamanni eða einum stjórnmálaflokki í einni ríkisstjórn. Ef tækifærið kemur aftur hafa í það minnsta orðið einar kosningar og enginn veit hver staða mála verður eftir það. Það gætu þess vegna orðið fleiri kosningar og því er enn frekari ástæða til að eiga upplýst og uppbyggilegt samtal um þetta og reyna að ná sem mestri samstöðu um vinnu okkar á þessu sviði.