150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

tekjuskattur.

543. mál
[16:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þarna er grundvallarmunurinn einmitt á því sem er skilyrt eða skilyrðislaust varðandi ákveðið jafnræði. Getum við fundið lausn þar sem við gætum á mjög öruggan hátt sem ekki er bundinn neinum villum komið þessum fjármunum, ekki öllum 3 milljörðunum heldur bara einhverjum hluta af þeim eða kannski öllum 3, frekar á stað þar sem þeirra er virkilega þörf?

Öll kerfi eru í grunninn dálítið gölluð og það að búa til skilyrðingar býr til glufur. Þess vegna er svo mikilvægt að leggja grunninn dálítið flatan fyrir alla, óháð aðstæðum, óháð stöðu foreldra eða neinu sem tengist því. Um leið og við byrjum að búa til skilyrði byrjum við að búa til glufur sem einhverjir geta fallið ofan í. Ef við erum með grunninn góðan sem við getum síðan byggt ofan á með ákveðnum skilyrðum fellur fólk aldrei neðar en á grunninn. Það er það sem þetta snýst um þegar allt kemur til alls, að byrja a.m.k. á því að hafa stöðugan grunn. Þess vegna er þetta hugmyndafræðileg framsetning á frumvarpinu og þess vegna erum við að tala um þetta á þeim nótunum. Sá grunnur er nauðsynlegur til að gera glufurnar grynnri þegar við komum að skilyrtu úrræðunum.