150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

höfundalög.

456. mál
[17:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, en fyrir nokkrum árum var mikið rætt um að lengja höfundarétt úr 70 árum í 90 ár eftir dauða höfundar. Hvaðan kom þrýstingur um það? Kom hann frá fátæka höfundinum sem þurfti að fá meiri pening vegna þess að hann gat hvergi fengið greitt fyrir sína vinnu? Nei, það voru stórfyrirtæki sem búa til efni eins og Disney-myndir sem byggja á gömlum sögum þar sem höfundarétturinn var að falla úr gildi. Þá þurfti að framlengja hann til að fyrirtækin sem komu upprunalegu persónunum og upprunalega hugverkinu nákvæmlega ekki neitt við, starfsmenn sem voru ekki fæddir þegar verkið var gefið út fyrst, gætu haldið yfirráðum yfir efninu.

Þetta er sú mynd sem er fljótlega dregin upp þegar farið er að skoða þrýstinginn á bak við það að vera alltaf að setja höfundaréttinn ofar menningarlegum réttindum, tjáningarfrelsi, friðhelgi einkalífsins eða eignarrétti annarra. Þetta kemur úr einhverjum áttum þar sem fjársterkir aðilar hagnast mikið á því að hafa einkaleyfi á tilteknum hugverkum. Þeir vilja halda þeim völdum til að halda fjárstreyminu.

Ég skil markmiðið, mér finnst það bara hvorki réttlátt né skynsamlegt.

Hv. þingmaður fór aðeins út í safngripi eða menningarverðmæti eða hvað maður á að segja. Ákveðnir hlutir sem eru samdir af höfundum á einum tíma verða hluti af menningu okkar, eins og t.d. lagið Hann á afmæli í dag eða Hún á afmæli í dag. Á einhverjum tímapunkti er þetta ekki lengur bara eign þess sem samdi það, það er orðið eign okkar allra á einhvern hátt. Segjum eins og jakkafatastíll eða hvaðeina, maður getur alveg fundið upp nýjan sem hönnuður en á einhverjum tímapunkti er hann orðinn hluti af samfélaginu. Hvar sá punktur er er óljóst en það segir líka svolítið um eðli höfundaréttar og hvernig við getum ekki litið á hann jafn beinharðan (Forseti hringir.) og eignarrétt í skilningi þess hvað það þýðir að eiga hús.