152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[16:06]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp vegna orða hv. þm. Óla Björns Kárasonar um að það sé alvanalegt að ráðherra og ráðuneyti óski eftir að Ríkisendurskoðun hefji rannsókn. Þá er það ekki alvanalegt að ráðherra óski eftir því að Ríkisendurskoðun hefji rannsókn á störfum ráðherra. Það þekkist að Ríkisendurskoðun sé beðin af ráðherra um að hefja skoðun á undirstofnunum ráðherra. Tökum sem dæmi að hæstv. dómsmálaráðherra óskar eftir að skoðuð sé bílaleiga ríkislögreglustjóra. Er það á borði ráðherra? Nei. Íslandsbankasala, er hún á borði ráðherra? Já. Fylgdist fólk hæstv. ráðherra með því ferli allt kvöldið og alla nóttina? Já. Er aðkoma ráðherra bundin í lög við sölu á hlut í Íslandsbanka? Já. Þarf hann að staðfesta ferlið allt (Forseti hringir.) frá upphafi til enda á öllum stigum, velja söluaðila, aðferð (Forseti hringir.) og hverjir fá að kaupa? Já. Á hvaða tilboðsverði? (Forseti hringir.) Já. Hann er að óska eftir rannsókn á sínu starfi. Það er ótrúlegt að hv. þingmaður átti sig ekki á muninum.