152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það sætir furðu að þetta mál skuli dúkka upp efst á forgangslista ríkisstjórnarinnar nú skömmu fyrir hlé vegna sveitarstjórnarkosninga, af ýmsum ástæðum. Augljóslega vegna þeirrar stöðu sem er uppi þar sem fyrir liggur að við Íslendingar munum þurfa, og viljum að sjálfsögðu, að taka á móti miklum fjölda flóttamanna frá Úkraínu vegna stríðsins þar. Hæstv. dómsmálaráðherra lýsti því yfir, fljótlega eftir að stríðið hófst, að við værum illa í stakk búin til að taka við miklum fjölda vegna þess að kerfið virkaði ekki, það væri teppt, það hefði verið of mikið af umsóknum sem ekki væri tilefni til og of langan tíma tæki að vinna úr slíku. Það er því furðulegt að ríkisstjórnin komi fram með frumvarp sem mun óhjákvæmilega hafa þau áhrif að setja Ísland enn frekar á kortið en nú er hjá þeim glæpagengjum sem sérhæfa sig í að smygla fólki milli landa. Eins og fulltrúar Evrópusambandsins hafa sagt hefur líklega talsverður meiri hluti þeirra sem hafa komið til Evrópu á undanförnum árum sem hælisleitendur komið á vegum slíkra gengja. Lönd leitast nú við, mörg hver í Evrópu, að bregðast við því með því að draga úr hvatanum til þess að slíkar leiðir séu notaðar. Hér er verið að fara í þveröfuga átt, þvert á það sem verið er að gera annars staðar á Norðurlöndunum, og búa til hvata til þess að koma hingað á vegum slíkra hópa fremur en að fara í gegnum hið örugga formlega kerfi.

Hitt er, herra forseti, að þetta mál skuli nú koma fram í 2. umr. áður en ríkisstjórnin hefur treyst sér til að setja annað mál, sem varðar hælisleitendur, í 1. umr. hér. Ekki er hægt annað en að líta svo á að það sé vísbending um það hver staðan er milli stjórnarflokkanna í pólitíkinni þessa dagana. Það mál sem ég vísa hér til, og hefur verið nefnt fyrr í þessari umræðu, var flutt af dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Sigríði Andersen, fyrir nokkrum árum — hefur tekið breytingum síðan, verið flutt af öðrum ráðherra og svo þeim þriðja, en ríkisstjórnin hefur ekki lagt áherslu á það eða ekki náð því í gegn. Það mál er til þess ætlað að auka skilvirkni í því að fást við það umfangsmikla mál sem móttaka hælisleitenda er. Það mál er sett til hliðar og í staðinn farið í 2. umr. um mál sem hefur þveröfug áhrif, ýtir undir að hælisleitendur fylgi ekki öruggu, lögformlegu leiðinni heldur taki áhættu, jafnvel lífshættulega áhættu, og borgi jafnvel aleiguna til glæpamanna fyrir að smygla sér áleiðis til Evrópuríkis og svo væntanlega frá einhverju Evrópuríki áfram til Íslands.

Þetta hlýtur að benda til þess, herra forseti, að Sjálfstæðisflokkinn skorti sjálfstraust þessa dagana. Þeir létu reyndar hæstv. forsætisráðherra reka ráðherra Sjálfstæðisflokksins úr ríkisstjórn, þann sem fyrstur lagði fram frumvarpið sem ég vísaði til, en treysta sér ekki einu sinni til að hefja 1. umr. um það mál fyrr en það mál sem við ræðum nú er klárað. Það mál sem við ræðum nú er ekki til þess fallið að gera okkur betur kleift að hjálpa flóttamönnum, þvert á móti. Þetta mál, eins og ég nefndi hér áðan, gengur þvert á það sem önnur lönd eru að reyna að gera til að gera aðstoð við flóttamenn skilvirkari.

Framsögumaður málsins, hv. þm. Jódís Skúladóttir, sagði sem er að þetta snerist um að gera stöðu allra jafna, hvort sem þeir kæmu hingað á eigin vegum, væru að borga einhverjum fyrir að koma sér til Evrópu og svo hugsanlega áleiðis til Íslands eða væri boðið til Íslands sem kvótaflóttamönnum; að menn fái sömu þjónustu, að menn eigi rétt á sömu þjónustu — og hún er mjög umfangsmikil. Við vildum taka vel á móti þeim flóttamönnum sem við bjóðum til landsins en það skipti ekki máli með hvaða hætti menn koma, að menn eigi rétt á sömu þjónustu. Á sama tíma er forsætisráðherra Danmerkur, leiðtogi jafnaðarmanna þar í landi, búinn að lýsa því yfir að það sé markmið ríkisstjórnar Danmerkur að enginn komi til Danmerkur til að sækja um hæli, menn geri það annars staðar, fari lögformlegar leiðir. Hvers vegna segir forsætisráðherra Danmerkur, formaður jafnaðarmanna, þetta? Er formanni jafnaðarmanna í Danmörku illa við flóttamenn, hælisleitendur? Nei, formaður jafnaðarmanna í Danmörku lítur á staðreyndir og það hvernig þessi mál hafa raunverulega þróast og sér að Danmörk, eins og forsætisráðherrann segir, geti ekki verið auglýst sem áfangastaður í sölubæklingum glæpamanna. Það megi ekki búa til þann hvata að senda fólk af stað, jafnvel í lífshættulega för, á vegum Danmerkur; að við hljótum að vilja beina fólki þá leið að fara í gegnum Sameinuðu þjóðirnar og aðrar leiðir sem eru til staðar til að hægt sé að bjóða fólki til landsins og velja þá sem eiga rétt á hæli fremur en að vinna úr því þegar til landsins er komið. Forsætisráðherra Danmerkur hefur verið afdráttarlaus með þetta, mátt sæta árásum, útúrsnúningum, en engu að síður notið stuðnings eigin flokks og flestallra annarra flokka í Danmörku. Þar í landi gera menn sér nefnilega grein fyrir því að núverandi ástand gengur ekki lengur og það hjálpar ekki þeim sem þurfa mest á hjálp að halda.

Hlutfallslega var fjöldi hælisumsókna á Íslandi áður en Úkraínustríðið hófst orðinn sexfalt meiri en í Danmörku og Noregi. Það gerðist ekki af sjálfu sér. Það gerðist vegna þeirra skilaboða sem norræn stjórnvöld sendu frá sér, dönsk, norsk og finnsk, ekki síst, og vegna þeirra skilaboða sem bárust frá Íslandi því að upplýsingar eru fljótar að dreifast í þessum heimi, þessum tæknivædda heimi samfélagsmiðlanna. Árið 2015, held ég það hafi verið, hitti ég finnskan ráðherra sem sagði mér að Finnar hefðu ekki vitað hvaðan á sig stóð veðrið þegar skyndilega mættu 50.000–60.000 Írakar til landsins. Þeir könnuðu hvað hefði gerst. Raunin var sú að breyting á reglu, sem finnskir þingmenn töldu smávægilega breytingu á reglu um það hvernig brugðist væri við hælisumsóknum þar í landi, hefði orðið til þess að þeir sem skipulögðu fólksflutningana ákváðu að flytja straum sem áður hafði legið til Belgíu til Finnlands og auglýsa það. Þessi þjónusta, ef þjónustu skyldi kalla, er auglýst á Facebook og öðrum samfélagsmiðlum og með dreifibréfum á götuhornum víða um heim. Og menn fylgjast með. Menn fylgjast með því hvert sé vænlegast að senda fólk og selja fólki fyrir vikið væntingar, selja fólki væntingar um að ákveðinn staður bjóði upp á það mikla þjónustu að réttlætanlegt sé fyrir viðkomandi að leggja allt að veði, jafnvel eigur allrar fjölskyldunnar, ganga jafnvel lengra og skuldsetja sig, til að geta keypt aðgang að því sem stjórnvöld í tilteknu landi bjóða upp á. Með því að aðstoða slíka hópa við að selja Ísland sem áfangastað er ekki verið að gera neinum greiða, nema hugsanlega þessum aðilum. Þetta vita dönsk stjórnvöld. Ekki aðeins vita þau þetta, þau útlista þetta í stefnu danskra sósíaldemókrata og stefnu ríkisstjórnarinnar. Danmörk getur ekki orðið að söluvöru fyrir menn sem eru tilbúnir til að taka aleiguna af fólki og leggja það í lífshættu.

Við hér á Íslandi þurfum því augljóslega að líta til þróunarinnar annars staðar á Norðurlöndum en einnig til þróunarinnar í heiminum. Þetta er risastórt mál. Flóttamannamál í heiminum verða líklega stærsta viðfangsefni næstu ára, jafnvel áratuga. En vegna þess hversu stórt þetta mál er þurfum við að bregðast við með rökum, staðreyndum og skynsemi til að geta gert sem mest gagn. En það hafa ekki alltaf verið viðbrögðin. Sú hefur allt of oft ekki verið nálgunin þegar þessi málaflokkur er ræddur.

Árið 2015, þegar flóttamannastraumurinn jókst til mikilla muna, ekki hvað síst vegna stríðsins í Sýrlandi en einnig af öðrum ástæðum, lagði ég til í ríkisstjórn, og var samþykkt, að við myndum stórauka stuðning við flóttamenn. En ég lagði áherslu á að litið yrði á heildarmyndina, að við tækjum á móti fólki hér heima og myndum gera það vel en við myndum ekki gleyma að aðstoða löndin í nærumhverfinu. Líbanon er land sem gekk í gegnum 20 ára borgarastyrjöld, er í raun gjaldþrota land og hefur mátt þola miklar hörmungar en hefur tekið að sér að sjá milljónum flóttamanna farborða og hýsa þá. Takmarkaður áhugi var fyrir því á Vesturlöndum að aðstoða Líbanon með því að veita Líbönum þá styrki sem þeir þurftu svo sannarlega á að halda til að geta sinnt þessari þjónustu, þrátt fyrir að hægt hefði verið að aðstoða tífalt fleiri fyrir sömu upphæð í Líbanon en á Vesturlöndum. Hvers vegna varð þetta raunin? Það er vegna þess að menn litu ekki á heildarmyndina og allt of margir létu þetta snúast um sjálfa sig, sýnileika þess að vera að aðstoða fremur en raunverulegan árangur af aðstoðinni. Aðstoðin yrði ekki eins sýnileg ef hún væri í fjarlægð, til að mynda í Líbanon.

Nú þegar umfang vandans er það sem það er getum við ekki nálgast lausnina á grundvelli sýndarstjórnmála. Við þurfum að leita lausna á grundvelli skynsemishyggju, raka og staðreynda. Það vantar algerlega í þessu frumvarpi. Hér var hv. þm. Jódís Skúladóttir spurð um kostnaðinn sem mun núna vera reiknaður upp á einhverjar 30 milljónir, ef ég man rétt, og taldi hv. þingmaður að þar hefði allt verið tekið með í reikninginn þó að hugsanlega kynni hin mikla fjölgun flóttamanna að breyta einhverju þar um. Kostnaðurinn sem birtur er í frumvarpinu snýst eingöngu um launagreiðslur til þriggja starfsmanna. Ekki er á nokkurn hátt litið á raunveruleg áhrif frumvarpsins og hvaða kostnað það muni hafa í för með sér. Þegar þetta er orðin reglan, að það sé sama hvernig þú kemur til Íslands, hvort sem þú bíður í flóttamannabúðum í Líbanon eða annars staðar hjá Sameinuðu þjóðunum — sækir um að komast til Íslands, sækir um að komast eitthvert, þarft sérstaklega á aðstoð að halda eða borgar glæpamönnum fyrir að smygla þér í lífshættulegri för til Evrópu, sama hvernig þú kemur, þú átt rétt á sömu þjónustu — mun það meira en nokkuð annað setja Ísland á kortið og leiða til gríðarlegrar fjölgunar umsókna, m.a. tilhæfulausra umsókna. Á hverjum bitnar það fyrst og fremst? Það bitnar á íslenskum skattgreiðendum en það er ekki stóra áhyggjuefnið. Þetta bitnar fyrst og fremst á þeim sem þurfa mest á hjálp að halda. Slíkt fyrirkomulag þýðir að við getum ekki aðstoðað það fólk eins og við gætum ella. Þess vegna er það svo alvarlegt að mælt sé fyrir máli hér sem gerir okkur erfiðara fyrir að aðstoða fólk sem er í mestri neyð og býr til mjög vafasama hvata fyrir mjög vafasama aðila. Svo bætist það við að menn hafa ekki gert nokkra einustu tilraun til að reikna kostnaðinn, enda er þetta hluti af sýndarstjórnmálum, ekki hluti af stjórnmálum sem snúast um rökræðu og innihald. Það að þetta gerist á sama tíma og stjórnvöld annars staðar á Norðurlöndum eru að fara í þveröfuga átt mun enn auka þessi áhrif. Ísland verður þá enn frekar áfangastaðurinn en önnur Norðurlönd. Ísland verður enn frekar auglýst á þessum Facebook-síðum eða öðrum miðlum sem notaðir eru til þess að selja drauma og væntingar sem menn geta svo ekki staðið undir. Ísland má ekki frekar en Danmörk leyfa það að landið sé notað í slíkum tilgangi. Markmið okkar hlýtur að vera að gera sem mest gagn fyrir sem flesta sem þurfa á hjálp að halda.

Vandinn liggur að nokkru leyti í því að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um móttöku flóttamanna, frá 1951, ef ég man rétt, sá ekki fyrir og tók ekki tillit til þess hvernig heimurinn hefur breyst, samgöngur og annað. Hann var hannaður til þess að taka á ástandi sem er mjög í líkingu við það sem við horfum nú upp á í Úkraínu þar sem stór hópur fólks þarf að flýja land vegna stríðsátaka yfir í nærliggjandi lönd og þau þurfa að geta tekið á móti þessum mikla fjölda, a.m.k. tímabundið. Þetta fyrirkomulag var ekki hannað til að fást við þá starfsemi sem nú er, því miður, eins og ég rakti hér áðan, orðin allt of ráðandi á þessu sviði þar sem hælisleitendur eru að verulegum hluta fyrst og fremst að leita sér að breyttum lífskjörum. En þeir hinir sömu eru þá að taka pláss frá þeim sem eiga fyrst og fremst réttinn. Við sjáum að flóttamenn frá Úkraínu eru fyrst og fremst konur og börn og eldra fólk en í Bretlandi, þangað sem flóttamenn, sem jafnvel hafa fengið hæli, flýja frá Frakklandi af því að þeir telja það vænlegri kost, er yfirgnæfandi meiri hluti ungir karlmenn. Viðbrögð breskra stjórnvalda við þessu birtust í síðustu viku með samningi við Afríkuríkið Rúanda um að senda hælisleitendur, sem kæmu með þessum hætti til landsins, þangað til að unnið yrði úr umsóknum þeirra. Einhverjum kann að þykja þetta grimmilegt en þetta er hugmynd sem kom fyrst fram frá dönskum jafnaðarmönnum sem hófu viðræður við Rúanda um slíkar móttökustöðvar, og raunar fleiri lönd að ég held. Tilgangurinn er ekki að senda sem flesta til Rúanda og láta þá bíða þar. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir að til staðar sé hvati til að ferðast á vegum glæpamanna, að beina fólki inn á lögformlegu öruggu leiðina og það þurfum við líka að gera.