152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:16]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Nú hefur það verið þannig um langa hríð að Evrópa hefur verið að synja þorra þess fólks sem hingað leitar, jafnvel eftir mjög hættulegum leiðum, snúið því til baka, sent það áfram eins og böggla þvers og kruss um Evrópu áður en það er síðan sent út úr Evrópu. Evrópa er jafnvel búin að gera samninga við ríki þar sem mannréttindabrot og gríðarlegt ofbeldi og bara virkilega viðurstyggilegir hlutir eru í gangi til þess að koma fólki þangað aftur. Þrátt fyrir þetta fjölgar því fólki sem borgar glæpasamtökum fyrir að fara lífshættulega leið, leggja líf sitt og limi og allt sem það á í hættu, til að komast hingað. Telur hv. þingmaður að það að senda fólk í burtu, sem hefur lagt þetta á sig og jafnvel orðið fyrir gríðarlegum áföllum og tjóni af því að hafa farið þessa leið sem augljóslega er eingöngu gert í neyð, sé mannúðlegri leið til að loka landamærum Evrópu? (Forseti hringir.) Hvernig í ósköpunum telur hv. þingmaður að hægt sé að koma í veg fyrir að fólk velji þessar leiðir (Forseti hringir.) þegar engar aðrar leiðir eru í boði?