152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[20:45]
Horfa

Frsm. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir hans innkomu í þessa mikilvægu umræðu. Mig langaði aðeins að koma hér upp og ræða um kostnaðinn af því að hann fór nú aðeins yfir það. Það kom ekki fram í minni framsögu en það er mikilvægt að við áttum okkur á því að þegar kostnaðurinn er metinn er það fyrir innrásina í Úkraínu. Í fyrri frumvörpum var talað um tvo starfsmenn og kostnað upp á sirka 24 milljónir sem í þessu frumvarpi er orðið að þremur starfsmönnum og kostnaðurinn 40,8 milljónir. Mér finnst mikilvægt að það komi fram að ég er ekki að segja að við séum bara skjóta á einhverja tölu og sjá svo hvað gerist, heldur hafa bara orðið grundvallarbreytingar á heimsmyndinni á meðan málið var í vinnslu. Það er búið að bregðast við að einhverju leyti en við verðum auðvitað líka að fylgja þróun heimsins, hvort eitthvað geti gerst sem dregur úr flóttamannastraumi eða hvort hann muni aukast enn frekar. Við getum aldrei vitað það daginn í dag nákvæmlega í nokkru einasta máli, hvort sem það eru flóttamannamál eða annað sem ríkið leggur fé í. Við verðum alltaf að taka stöðuna hverju sinni og þetta er besta staðan eins og hún lítur út í dag miðað við nýjustu staðreyndir eftir innrás í Úkraínu. Ég vildi alla vega koma þessu að. Það væri áhugavert að heyra ef hv. þingmaður hefur einhverja aðra sýn á það.