152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[21:16]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar og hlakka til að svara spurningum sem koma í seinni ræðunni líka. Mig langar bara að benda á að það er sennilega hreinlega ómögulegt að taka á móti hundruðum þúsunda. Það eru ekki svo mörg laus flugsæti til Íslands á hverju ári, sér í lagi þegar ferðamannaiðnaðurinn er að koma upp aftur.

Ég sagði ekki að það ætti að taka endilega á móti fólki frá öllum löndum sem væru fátækari en Ísland en ég horfi á það að fólk er að flýja stríð, flýja ofsóknir, t.d. vegna kynhneigðar sinnar, flýja vegna pólitískra árása. Þetta er allt fólk sem við gætum tekið á móti umbúðalaust án þess að hingað væru að koma hundruð þúsunda. Það er náttúrlega gamla góða hræðsluaðferðin að segja alltaf: Hingað er að koma holskefla. Það er ekki að koma holskefla hingað á nyrsta hjara veraldar. Það er einfaldlega fýsískt of flókið. Það er svo sannarlega þannig að við getum tekið á móti mun fleirum en við gerum í dag. Við gætum líka tekið á móti þeim sem þegar koma hingað í dag. Við sendum fullt af fólki til baka, fullt af fólki við háan kostnað, eins og kom fram í svari hæstv. dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur. Við gætum nýtt það í að taka á móti þessu fólki í stað þess að senda það úr landi.