152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[21:44]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að tileinka mér heila ræðu. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að taka því en ég get lofað hv. þingmanni því að ég fel aldrei afstöðu mína í neinu máli. Ég kom ekki hingað inn á þing til að þegja heldur til að berjast gegn óréttlæti og þeim ómannúðlegu hlutum sem gerast hér. Mig langaði líka að leiðrétta hv. þingmann. Það hafa aldrei verið fleiri stríð í heiminum en núna. Munurinn er kannski sá að færri hermenn deyja í dag en samkvæmt tölum frá bæði Sameinuðu þjóðunum og Rauða krossinum hafa aldrei fleiri verið í stríði og samkvæmt Sameinuðu þjóðunum eru hátt í 2 milljarðar manna sem verða að einhverju leyti fyrir áhrifum stríðs eða átaka innan landa. 2 milljarðar manna. Stærstu stríðin sem eru í gangi núna fyrir utan Úkraínu komast kannski ekki oft í fjölmiðla, stríð í Jemen þar sem 22 milljónir manna búa, stríð í Sýrlandi, Afganistan, Mjanmar þar sem eru Róhingjar, fólkið sem hefur þurft að flýja. Já, það er stríð hér, hv. þingmaður.