152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[21:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Fjöldi þeirra sem fellur í stríði á hverju ári hefur jafnt og þétt farið minnkandi þó að það hafi breyst að nokkru leyti eftir að stríðið í Sýrlandi og í Úkraínu hófust og vissulega stríð eins og í Jemen, mannskæð stríð. Það breytir ekki því að ef farið er yfir tölfræði allrar 20. aldarinnar og fram á þessa öld hefur mannfall í stríði farið verulega minnkandi. Það er ekki rétt sem hv. þingmaður segir að það hafi verið óvenju mikið stríðsástand undanfarin ár. En það bætir auðvitað ekki stöðu þess fólks sem býr við slíkt ástand núna og því fólki þarf að hjálpa eins og kostur er. Hv. þingmaður nefndi hér áðan, og ég hef ekki haft tækifæri til að kanna hvort það er rétt, að einungis 25 ríki, 25–27 ríki, tækju á móti kvótaflóttamönnum. Þá spyr maður sig: Hvers vegna? Hvers vegna, t.d. með þessi hræðilegu stríð í Miðausturlöndum, taka nágrannalöndin ekki á móti flóttamönnum? Sum gera það vissulega, Líbanon er augljóst dæmi og Jórdanía til að mynda, en löndin við Persaflóa svo að segja ekki neitt. Er það ásættanlegt að okkar mati, þegar við erum að fást við svona stórt vandamál á heimsvísu, að lönd einfaldlega komist hjá því, jafnvel mjög rík lönd, sum ríkustu lönd heims, að taka þátt í að aðstoða fólk í neyð?