152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[22:02]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Mig langar að byrja á því að tala um ummæli hv. þm. Bergþórs Ólasonar. Hann talar um að bæta ekki þjónustu svo það verði ekki of aðlaðandi fyrir flóttamenn að koma, sem sagt að þjónustan verði það aðlaðandi að fleiri flóttamenn komi, réttara sagt, til landsins. Í því samhengi talaði hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson um að það eina sem stæði í vegi fyrir því að fólk kæmi til landsins væri þetta langa og erfiða ferðalag, að hér væri betra að vera. Mér finnst þetta vera dálítil einföldun vegna þess að það að flýja land sitt eða sína heimahaga er ekki eitthvað sem er tekið út með sældinni. Það er ekki auðveld aðgerð og ekkert við það er auðvelt.

Ég veit ekki hvort hv. þingmenn hafa búið erlendis eða hvernig það er en bara það að flytja í annað land þar sem er mögulega annað tungumál, væntanlega ef þau flytja til Íslands er annað tungumál, og önnur menning, annað fólk, þú ert fjarri því sem þú þekkir, fjarri því sem þú ólst upp við, fjarri fjölskyldu — þetta er ekki eitthvað sem er endilega mjög eftirsóknarvert. Mér finnst ekki vera endilega tekið inn í umræðuna hversu eftirsóknarvert og hversu auðvelt eða ekki auðvelt það er að flytja annað, flytja til annars lands, og sérstaklega þá lands þar sem menningin er gjörólík því sem þessir einstaklingar hafa vanist. Þannig að einföldunin er svolítið mikil þegar kemur að þessu. Það er væntanlega ekki auðvelt fyrir fólk að flytja. Það eru margir þættir sem spila inn í og þegar hlutirnir verða betri þá fer fólk oft aftur til sinna landa.

Það sem við erum að ræða um hér er frumvarp til laga. Meginefni frumvarpsins er, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er lagt til að fært verði í lög að Fjölmenningarsetur veiti sveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf í tengslum við móttöku einstaklinga með vernd.

Þá er Fjölmenningarsetri falið að halda utan um boð móttökusveitarfélaga um búsetu og þjónustu byggð á þeim upplýsingum sem fyrir liggja og með tilliti til ákveðinna þátta, svo sem möguleika á námi, aðgangs að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, atvinnutækifæra og samgangna. Með móttökusveitarfélagi er átt við þau sveitarfélög sem gert hafa samning við félagsmálaráðuneytið um móttöku einstaklinga með vernd.“

Ég skil ekki hvers vegna einhver ætti að vera á móti þessu vegna þess að þetta er gott fyrir allt samfélagið, að fólk sem kemur hingað á flótta fái sem besta þjónustu og að við hugum að þessum einstaklingum sem best til þess að þeir geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu og geti fundið sinn sess hér og farið út á vinnumarkað, borgað skatta, börnin séu heilbrigð, börnin fái heilbrigðisþjónustu og fólkið líka. Mér finnst þetta vera mjög sjálfsagt, frábært frumvarp og þótt fyrr hefði verið, að sveitarfélögin sameinist um að taka vel á móti þessum einstaklingum.

Mér finnst líka að við þurfum aðeins að hugsa þetta út frá því að við erum öll manneskjur. Það að við ættum ekki að bera neina ábyrgð á því að aðstoða aðrar manneskjur á flótta eða gera það alls ekki eitthvað aðlaðandi að koma til landsins — það er bara ekkert aðlaðandi að flytja frá sínum heimahögum. Það er ekki aðlaðandi að fara til Íslands fyrir einhvern sem býr annars staðar og hefur vanist öðru. Menningin er allt öðruvísi. Það er ekki aðlaðandi. Það er erfitt, það er átakanlegt, það eru áföll að baki. Það er ýmislegt þarna. En aðlaðandi og auðvelt eru held ég ekki orð sem lýsa því hvernig það er fyrir fólk á flótta að fara til annarra landa. Ég held að það sé stór misskilningur að þetta sé aðlaðandi, að flytja frá fjölskyldu sinni, frá öllu sem þau þekkja, frá sínu tungumáli og menningarvenjum, til þess að koma til Íslands þar sem hvað, þar sem allt er svo frábært og fólki er tekið svo vel? Það er ekkert þannig. Við erum að reyna að stefna þangað sem betur fer, sem er bara frábært og við erum á réttri braut. En við eigum samt langt í land.

Mér finnst pínu undarlegt að tala um þetta eins og þetta sé ekkert mál og þetta sé eitthvað sem allir myndu gera ef þeir byggju einhvers staðar og væru fátækir. Það er nú bara þannig að þeir sem eru ríkir eru oft ekkert hamingjusamir þannig að það má ekki einfalda þetta svona svakalega mikið; vegna þess að ég er fátækur og bý í fátæku ríki þá mun ég flytja til Íslands. Ef ég er í neyð og er á flótta undan stríði eða öðrum ofsóknum þá kannski því miður, og væntanlega í öllum tilfellum er fólk að hugsa „því miður“, neyðist ég til að fara annað. Ég kýs það ekki endilega, og ef ég kýs það, hverjar eru ástæðurnar á bak við það?

Við berum ábyrgð eins og önnur lönd á að taka á móti einhverju fólki. Svo má auðvitað deila um það hversu mörgu og hvernig og allt þetta. En það þarf samt að vera þannig að við viljum fara fram með mannúðarsjónarmið og veita mannúð öllum þeim sem koma til landsins, hvort sem þau verða hér eða fara annað eða eitthvað. En við þurfum að byrja á því að veita þessu fólki samkennd og skilning og möguleika á námi, nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, atvinnutækifæri. Flestum Íslendingum finnst þetta sjálfsögð réttindi, að fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Þetta er eitthvað sem við eigum að standa vörð um, að við tökum við fólki með mannúð, samkennd og umhyggju og að þetta sé ekki bara það að fara til landsins og flytja til Íslands eins og það sé mjög auðveld ákvörðun, tekin léttvægt; ekkert mál, hef það örugglega betra á Íslandi og ég ætla að flytja þangað. Þetta er ekki svona auðvelt. Fólk gerir þetta ekki án þess að það sé í neyð — eða, sumir flytja og eru ævintýragjarnir og allt það en það þarf að tala um þetta með það að leiðarljósi að þetta sé ekki eins auðvelt og bara að ég flytji eitthvað annað af því að ég er frá fátæku ríki eða hvernig sem það er. Þetta er ekki svona auðvelt.

Við þurfum að vanda til verka, við þurfum að vanda það hvernig við tökum á móti þessum einstaklingum. Hér er verið að gera það í þessu frumvarpi og þetta er bara mjög gott og mikið í þessu sem er eitthvað sem við ættum alltaf að vera að gera og höfðum verið búin að gera áður. En það er bara frábært að verið sé að gera þetta núna. En það er misskilningur að fólk muni koma hingað í hrönnum vegna þess að við tökum á móti fólki með mannúð og pössum upp á grundvallarréttindi þess til þess að aðlagast samfélaginu, til að vera hluti af samfélaginu og að því líði vel og fái þá þjónustu sem það þarf. Mér finnst bara mjög mikilvægt að við tökum þessu ekki eins og það sé ekkert mál fyrir einstaklinga að flytja til annarra landa.