152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[22:34]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir ræðuna. Hv. þingmaður kom hér inn á hvernig fólk sem hingað kæmi gæti haft með auðveldari hætti aðgang að innlendum atvinnumarkaði umfram það sem nú er. Nú finn ég a.m.k. ekki fljótt á litið í gögnum málsins samanburð við nágrannaþjóðirnar, en af því að ég veit að hv. þingmaður hefur starfað í þessu umhverfi þá langar mig að spyrja hana hvernig íslenska kerfið er hvað varðar aðgengi hælisleitenda að atvinnumarkaði samanborið við Norðurlandaþjóðirnar. Nú eru auðvitað misjafnar reglur í hverju landi, ímynda ég mér, en ég gef mér að hv. þingmaður hafi skoðað þetta að einhverju marki. Það sem ég er að reyna að átta mig á og draga fram er hvort við á Íslandi erum að sníða þrengri stakk í þeim efnum en annars staðar er. Síðan er annað atriði almenns eðlis varðandi aðgengi fólks að hinum ýmsu velferðarkerfum, til að mynda eru Íslendingar sem eru búsettir erlendis í ákveðið langan tíma undirorpnir ákveðnu biðtímabili sem ég man ekki í augnablikinu hversu langt er áður en þeir njóta fullrar þjónustu, til að mynda í heilbrigðiskerfinu, þannig að það er svo sem víða slík staða uppi. Það er reyndar atriði sem mér þætti full ástæða til að taka til endurskoðunar. En spurningin er, eins og ég segi: Hvernig líta þessi skilyrði þeirra sem leita hér verndar út samanborið við þær þjóðir sem við helst berum okkur saman við í þessum efnum?