152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[23:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Nú kemst ég senn í þau atriði sem ég hafði hugsað mér að fara yfir varðandi þennan stóra málaflokk. Ég vil þó byrja á því að ljúka athugasemdum mínum við umræðuna fram að þessu því að það var nefnt að sum lönd, Danmörk til að mynda, gengju býsna langt í því að reyna að vera fráhrindandi gagnvart hælisleitendum. Það er alveg rétt að Danmörk hefur ráðist í ýmsar aðgerðir, bæði núverandi ríkisstjórn og fyrri stjórnir, til þess að gera landið ekki eins aðlaðandi í augum þeirra sem selja hugsanlega ferðir til Danmerkur en um leið bætt í og aukið stuðning við flóttamenn á nærsvæðum og tekið á móti kvótaflóttamönnum. Þannig gerðist það í tíð þarsíðustu ríkisstjórnar, og vakti heimsathygli, að ákveðið var að hælisleitendur sem kæmu til landsins yrðu að skila eigum sínum umfram ákveðna upphæð, skartgripum, peningum og öðru til danska ríkisins. Þetta var að mínu mati of langt gengið. Þetta var að mínu mati í rauninni brot á mannréttindum. En hvers vegna gerðu dönsk stjórnvöld þetta? Hvers vegna gáfu þau út þessa yfirlýsingu og auglýstu hana raunar, m.a. í dagblöðum í Miðausturlöndum? Það var ekki vegna þess að dönsk stjórnvöld hugsuðu sér að hagnast á því að taka eigur hælisleitenda af þeim. Nei, það var til að senda þau skilaboð að Danmörk væri ekki auðveldur áfangastaður ef menn ætluðu sér ekki að fara eftir lögformlegum leiðum.

Síðan þá er komin ný ríkisstjórn í Danmörku. Ég mun fara nánar yfir stefnu hennar hér síðar í kvöld eða í nótt. Þar er af nógu að taka því að þetta er yfirgripsmikil og heilsteypt stefna sem við ættum að mínu mati að læra af, herra forseti, en þess í stað eru íslensk stjórnvöld með þessu frumvarpi að fara í þveröfuga átt. Í stað þess að reyna að beina fólki í öruggari farveg, í lögmætan farveg, er verið að búa til hættulegan hvata en ég vík að því síðar í nótt.

Nú ætla ég að snúa mér að nokkrum grundvallaratriðum sem þarf að hafa í huga þegar samin er stefna eða línur eru markaðar varðandi málefni hælisleitenda. Það fyrsta sem ég ætla að fara yfir er það sem á útlensku er kallað „pull factor“ eða aðdráttarafl. Ég hef lesið ófáar fræðigreinar um að það sé ekki hægt að nálgast þennan málaflokk öðruvísi en að líta fyrst og fremst á þetta, hversu mikið aðdráttaraflið er. Það má endurorða og spyrja sem svo: Hversu auðvelt er fyrir glæpagengi sem smygla fólki að selja áfangastaðinn? Þetta er auðvitað atriði sem hefur mjög komið við sögu í Danmörku eins og ég nefndi áðan. Þetta aðdráttarafl hefur aukist gríðarlega á Íslandi af ýmsum ástæðum en fyrst og fremst vegna þeirra skilaboða sem berast frá íslenskum stjórnvöldum. Á sama tíma og skilaboð sem berast frá stjórnvöldum annars staðar á Norðurlöndum miða að því að draga úr þessum togkrafti berast héðan skilaboð sem auka á hann, að því marki að a.m.k. sexfalt fleiri, ég hugsa reyndar að hlutfallið sé orðið hærra núna, sækja um hæli á Íslandi hlutfallslega en í Noregi og Danmörku. Jafnvel hin gríðarlegu áhrif kórónuveirufaraldursins dugðu ekki til að slá á þetta, í rauninni þvert á móti, a.m.k. hlutfallslega, því að hlutfallslega fækkaði hælisumsóknum á meðan lokanir stóðu yfir vegna kórónuveirufaraldursins mun meira á öðrum Norðurlöndum en á Íslandi. Í júlí 2020 þegar tímabundið var lítillega slakað á ferðatakmörkunum, sem höfðu vissulega haft áhrif á þennan straum, kom mesti fjöldi hælisleitenda sem komið hefur til landsins á einum mánuði frá 2017, eða 1.096 manns. Þetta er væntanlega árið, herra forseti. Flestir þeirra sem — (Forseti hringir.) Tími minn er á þrotum miðað við hringingu hæstv. forseta og bið ég hann því að skrá mig aftur á mælendaskrá.