Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:10]
Horfa

Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti vill bregðast við með tvíþættum hætti. Annars vegar er auðvitað um það að ræða að þingmenn eiga skv. 3. mgr. 8. gr. þingskapa rétt á að bera fram fyrirspurnir til forseta Alþingis um stjórnsýslu Alþingis. Innihald og efni þeirrar fyrirspurnar sem hv. þingmaður hefur óskað eftir að leggja fram varða ekki stjórnsýslu Alþingis heldur eftirlit Ríkisendurskoðunar með tilteknum þáttum í framkvæmd laga um Lindarhvol. Því verður ekki heimilað af hálfu forseta að bera fyrirspurnina fram með þessum hætti.

Hins vegar er það rétt sem hv. þingmaður nefnir, að á grundvelli 2. mgr. 57. gr. þingskapa getur þingmaðurinn óskað eftir því að atkvæðagreiðsla fari fram um þessa synjun forseta og verður við því orðið eins fljótt og auðið er.

Varðandi aftur fyrirspurn hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þá er rétt að upplýsa það að í framhaldi af orðaskiptum hér í fundarstjórn forseta í síðustu viku þá kannaði forseti hvernig farið hefði verið með beiðnir um birtingu þeirra lögfræðiálita sem til er vísað. Þeim beiðnum hefur verið synjað á þeirri forsendu að um væri að ræða lögfræðilega eða sérfræðilega ráðgjöf vegna undirbúnings eða meðferðar réttarágreinings. Verður forseti, til að gæta samræmis, að taka afstöðu til beiðni hv. þingmanns á sömu forsendum.