Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:35]
Horfa

Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti hefur áður greint frá því að álitamál í þessu sambandi snúa annars vegar að því hvort greinargerð sem settur ríkisendurskoðandi skilaði sumarið 2018 hafi orðið skjal í stjórnsýslu þingsins eða teljist til vinnuskjals eða annarra slíkra gagna skv. 15. gr. laga um Ríkisendurskoðun. Og þar stendur hnífurinn í kúnni, að skilningur, m.a. innan forsætisnefndar, hefur verið mismunandi á því hvernig túlka beri það atriði. Það reynir á vegna þess að þar er um að ræða skilsmuninn milli þess hvort það er á forræði forsætisnefndar eða forseta Alþingis að afhenda greinargerðina eða á forræði ríkisendurskoðanda sem hefur hafnað því að afhenda greinargerðina á þeim grundvelli að þarna hafi ekki verið um að ræða fullbúna skýrslu heldur skjal sem lýsti stöðu rannsóknar sumarið 2018, sem síðan lauk vorið 2020 með endanlegum skýrsluskilum til Alþingis, sem fór lögformlegar leiðir og gekk m.a. til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem ekki lauk þeirri vinnu á síðasta kjörtímabili. En eins og forseti hefur bent á þá getur núverandi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tekið þá vinnu upp aftur þegar henni sýnist svo.