Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:56]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að taka það fram í upphafi að ég hef hvergi komið að þessu máli, hvorki í forsætisnefnd eða stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og vil ég þakka hæstv. forseta fyrir að reyna að halda einhverju samhengi í málinu því mér finnst svolítið sitthvor spurningin vera hér uppi aftur og aftur. Aðalatriðið finnst mér vera að eftirlitshlutverk þingsins er mikilvægt. Gegnsæi og traust á stjórnsýslunni er mikilvægt og þar held ég að formfesta sé eitt það mikilvægasta, að farið sé eftir formi og reglum og það heyrist mér hæstv. forseti vera að gera. Við höfum búið til skipulag sem á að halda utan um þetta, við erum með Ríkisendurskoðun og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem á að sjá til þess að það sé allt í lagi. En ég er farinn að spyrja mig eftir þessa umræðu, hæstv. forseti, hvort þingmenn hafi efasemdir og telji að Ríkisendurskoðun, sem tók við áfangaskýrslu í rannsókn á Lindarhvol, hafi haldið einhverjum upplýsingum frá þinginu sem hafi ekki skilað sér í hinni endanlegu skýrslu um Lindarhvol. (Forseti hringir.) Eru einhverjar efasemdir um starfsemi Ríkisendurskoðunar hér, hæstv. forseti? (Gripið fram í.)