Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Þó svo að við myndum hætta öllum útblæstri koltvísýrings á morgun þá munum við á næstu áratugum upplifa aukinn lofthita og raka sem mun gera jörðina óbyggilega fyrir um 3 milljarða jarðarbúa. Þetta er ekki fólk einhvers staðar í svörtustu Afríku heldur erum við að tala um svæðin í Suður-Evrópu og Suður-Bandaríkjunum. Stór fjöldi fólks mun leita sér að nýjum stað til að búa á og við verðum annaðhvort hluti af þeim sem flýja eða af þeim sem taka á móti þeim sem eru að flýja þessar loftslagsbreytingar. Já, frú forseti, þjóðir heims eru rétt að byrja að átta sig á því neyðarástandi sem loftslagsbreytingarnar eru. Á sama tíma og þjóðir heims keppast við að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda eru fáir sem þora að ræða þá staðreynd að fyrir ákveðin ríki heims er orðið of seint að grípa í taumana og aðstæður munu verða það slæmar að ekki er hægt að tala um neina aðlögun. Í stað þess að bíða og sjá hvað setur þurfum við sem mannkyn að byrja að hugsa út leiðir til þess að takast á við þessar breytingar og byggja upp samfélag sem er tilbúið að taka á móti þessum loftslagsflóttamönnum áður en þeir byrja að streyma stjórnlaust frá þeim svæðum sem eru að verða hvað verst úti. Þetta verða fólksflutningar á skala sem hefur ekki sést áður og það hvernig við tökumst á við þessa áskorun verður eitt stærsta viðfangsefni þessarar aldar.