Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Á dögunum kom upp eldur á áfangaheimilinu Betra líf í Vatnagörðum. Í gildandi lagaumhverfi er ekki kveðið á um leyfisskyldu eða eftirlit með rekstri og umsjón áfangaheimila. Þá eru engin lagaákvæði sem kveða á um heimild ráðherra til að setja eftirlit með þeim í reglugerð.

Á áfangaheimilum búa einstaklingar sem oft glíma við fjölþættan vanda og er yfirleitt um tímabundið búsetuúrræði að ræða í kjölfar dvalar á meðferðar- eða endurhæfingarstofnunum eða í fangelsum. Tilgangurinn er almennt að stuðla að endurhæfingu þessa viðkvæma hóps. Okkur sem samfélagi ber skylda til að vernda þennan hóp eftir fremsta megni og árið 2023 er fullkomlega óboðlegt að hver sem er geti boðið upp á slíkt úrræði í ófullnægjandi húsnæði þar sem líf og heilsa íbúa er ekki tryggð.

Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra að undirbúa lagasetningu um leyfisskyldu og eftirlit með rekstri áfangaheimila, skilgreiningu þeirra og hlutverk.“

Nú verðum við öll að standa saman. Við verðum að tryggja örugga og opinbera heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með fíknivanda, ekki síst þau sem glíma við fjölþættan vanda. Hluti af því að tryggja þjónustu við þennan viðkvæma hóp er að setja skýrar lagareglur um rekstur áfangaheimila og tryggja að eftirliti og ýtrustu kröfum um gæði þjónustunnar sé fylgt eftir.