Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Baráttan um náttúru Íslands hefur staðið áratugum saman og kafli í þeirri baráttu er að eiga sér stað í kringum neðri hluta Þjórsár þar sem stjórnarmeirihlutinn í einhverjum hrossakaupum sín á milli ákvað að hleypa Hvammsvirkjun áfram í nýtingu frekar en að skoða hana heildrænt með hinum tveimur virkjununum á því svæði, í óþökk heimafólks. Við þekkjum þessa sögu allt of vel en hún hefur tekið á sig nýjar myndir þegar orkuskipti eru notuð sem skálkaskjólið fyrir mestu virkjunarbrjálæðingana. Við sjáum þetta í mörgum löndum. Ísland er það land sem framleiðir mesta raforku á haus. Það land sem framleiðir næstmest eru nágrannar okkar í Noregi og þar eru nú heldur en ekki líka deilur um virkjanir. Síðustu daga höfum við séð ótrúlega ljóta birtingarmynd þeirrar deilu. Myndir sem sagan mun dæma Noregi af, vil ég segja. Við höfum séð lögreglu núna um helgina bera samíska mótmælendur út úr orkumálaráðuneytinu þar sem þeir voru í setuverkfalli og í dag var verið að rýma planið fyrir utan Hæstarétt af sömu mótmælendum Sama. Deilan stendur um vindorkuver á svæði sem þessir hirðingjar nýta til þess að reka hreindýr á, hluti af hirðingjalífi þeirra, sjálfsmynd, menningu og tungumáli. Hæstiréttur hefur dæmt að þeirra réttur skuli vega þyngra en réttur virkjunarsinna. Þessu bregðast stjórnvöld ekki við. Þvert á allt sem heitir réttlát umskipti er þarna troðið á réttindum árþjóðar, fólksins sem á alltaf að hafa í huga þegar við erum að vinna að réttlátum umskiptum í þágu loftslagsmála. Hér kemur allt saman; lög og réttur, umhverfisvernd, (Forseti hringir.) menning í útrýmingarhættu, nýlendustefna og arfleifð hennar. Hér skiptir máli að við stöndum með Sömum í þessari baráttu.