Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

staðfesting ríkisreiknings 2021.

327. mál
[20:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég á í dálitlum erfiðleikum með ríkisreikninginn — eða kannski einna minnstum erfiðleikum með hann nákvæmlega, heldur allt ferlið sem liggur af honum. Allt ætti að vera þannig að í upphafi skal endinn skoða. Þegar ég fæ ríkisreikninginn í hendurnar þá klóra ég mér rosalega mikið í hausnum og pæli í því af hverju fjárlagafrumvarpið lítur ekki út eins og ríkisreikningurinn þannig að maður sjái muninn á því hvernig fjárlögin í rauninni enda á sama hátt og ríkisreikningurinn sem er lagður fram og fjármálaáætlun líka. Ég á í þessum erfiðleikum af því að þarna er verið að gera upp fjárheimildir ríkisins en í fjárlögum og fjármálaáætlun er verið að leggja til fjárheimildir og þarna þarf að vera skýr brú á milli. Við þurfum að geta séð að ef þetta fer eins og það er lagt til þá mun ríkisreikningurinn enda nákvæmlega þannig. En mismunandi framsetning á þessum skjölum gerir það að verkum að það er ekkert nema hausverkur að klóra sig í gegnum það hvaða samhengi er á milli ríkisreikningsins 2021 og fjárlaga 2021, sem er fyrir langalöngu síðan, þetta kemur allt of seint, eins og hv. formaður fjárlaganefndar minntist á áðan. Það þarf að vinna að því að flýta ferlinu og er ekki í fyrsta sinn sem hefur verið minnst á það, að það þurfi að laga. Loforð gefa það til kynna að ríkisreikningur eigi að vera tilbúinn í mars fyrir útgáfu fjármálaáætlunar. Fjármálaáætlun kemur eiginlega seint fram líka, ef maður pælir í því, þegar allt kemur til alls. Það væri mjög náttúrulegu staður fyrir ríkisreikning ef hann væri tilbúinn fyrir framlagningu fjármálaáætlunar fyrir næstu ár því að það er í rauninni ákveðinn grunnur. Núna myndi árið 2023 klárast, tökum þau fjárlög, ríkisreikningur ársins 2023 kemur út í mars og fjármálaáætlun fyrir árið 2024 kæmi í kjölfarið. Núna ættum við að vera að fá í hendurnar ríkisreikning ársins 2022 til þess að við getum sagt: Þetta er í alvörunni staðan á fjármálum ríkisins núna í upphafi ársins 2023. Þá getum við tekið betri ákvarðanir um það hvað við ætlum að gera á næsta ári og í framhaldinu. En við erum ekki enn þá þar.

Það er dálítið merkilegt að hugsa til þess að það eru stærðarinnar fyrirtæki úti um allan heim sem eru miklu duglegri að skila þessum niðurstöðum, skila ársreikningum, ársfjórðungsreikningum og svoleiðis á innan við mánuði jafnvel, miklu stærri fyrirtæki heldur en íslenska ríkið er í rauninni. Það er merkilegt. Ef við pælum í því af hverju það er þá er skýringuna kannski að finna í því að stofnanir hingað og þangað eru mjög sjálfstæðar hvað fyrirkomulag á bókhaldi varðar. Fjármálastjóri hverrar stofnunar fyrir sig gerir þetta eftir nokkurn veginn eigin hentisemi. Maður hefur heyrt meira að segja af því að í einhverjum tilvikum hafi það verið þannig að það hafi ekki einu sinni verið notað sama bókhaldskerfi. Það er kannski búið að strauja það loksins núna en það var alla vega vandinn í einhverjum tilfellum þar sem þurfti að varpa gögnum á milli tölvukerfa og þá þurfti að passa upp á villur og ýmislegt svoleiðis, ekki mjög jákvætt. Það er held ég, gríðarlega margt sem væri hægt að vinna að hvað hagkvæmni varðar við að gera þetta ferli betra, hvernig við fáum öll gögn um það hvernig fjárheimildum hefur verið varið en líka í hina áttina, hvernig við erum að leggja til að fjárheimildir verði veittar. Þetta er sitthvor hliðin á sama peningnum. Annars vegar erum við með ríkisreikning sem er með ákveðna framsetningu og ákveðna niðurstöðu. Fjárlög eru hin hliðin á þeim peningi, þar sem verið er að leggja til fjárheimildir. Þau eiga að líta nákvæmlega eins út til þess að við getum verið með góðan samanburð. Þar er mikilvægt atriði að átta sig á því að framsetning ríkisreiknings, fjárlaga, fjármálaáætlunar o.s.frv., er oft ekki fyrir þing og þjóð heldur er fyrir einhverja bókhaldsgæja og rekstrarhagfræðinga eða svoleiðis. Hún er ekki fyrir þingmenn, ekki fyrir fólk úti í samfélaginu til að nálgast og skilja hvað er verið að gera. Það hlýtur að vera okkar krafa að biðja um framsetningu fjárlaga og líka ríkisreiknings á aðgengilegu og á skiljanlegu máli. Það er grundvallarkrafa okkar. En það hefur aldrei gerst að þingið rétti upp hönd og segi: Fyrirgefið, en við viljum fá svona fjárlagafrumvarp með svona framsetningu, það sé talið upp hvaða kröfur við gerum, heldur er það bara framkvæmdarvaldið sem ákveður að við ætlum að gera þetta svona: Gjörið svo vel, hérna er þetta. Við þurfum að klóra okkur í gegnum það, krafsa okkur í gegnum alla rammana og svoleiðis og reyna að átta okkur á því hvað þetta þýðir. Rosalega mikið af vinnunni fer í það að klóra okkur í gegnum þá framsetningu sem framkvæmdarvaldið, fjármálaráðuneytið, heldur að sé gagnleg fyrir þing og þjóð, en er það bara alls ekki. Við erum sífellt að spyrja sömu spurninga um barnabætur eða húsnæðismarkaðinn eða heilbrigðiskerfið og ýmislegt svoleiðis. Við erum alltaf að spyrja sömu spurninganna og við fáum einhverjar tölur í minnisblöðum fram og til baka en í næsta fjárlagafrumvarpi er ekki gert ráð fyrir því að svara sömu spurningunum, sem er mjög merkilegt. Hérna eru IPSAS- og GFS-staðlar og ég veit ekki hvað og hvað, en hvað með okkar staðal, hvað með okkar kröfur um það hvernig við viljum fá gagnsæ og aðgengileg fjárlög, og þá ríkisreikning í kjölfarið?

Ég vonast til þess að þessi undirhópur fjárlaganefndar sem hv. formaður fjárlaganefndar minntist á nái að koma þeirri vinnu aðeins í gang. Við höfum verið að safna hugmyndum um það hvernig er hægt að gera hlutina betur. Þessi endurskoðunarskýrsla Ríkisendurskoðunar er vissulega innlegg í það en hún er í þessum tæknilegu atriðum. Hún er ekki um þessi praktísku atriði sem þessi þingsalur þarf á að halda. Við erum að tala um af hverju við erum að leggja til þessar fjárheimildir og hver árangurinn á að vera af því að nota skattfé til þeirra verka. Um daginn kom ráðuneytið til fjárlaganefndar og var að kynna fyrir okkur áhættumat ráðuneytisins á stofnunum á fjárheimildum. Það er mjög merkilegt. Strax í febrúar er komið eitthvert áhættumat um að það sé verið að fara fram úr í hinum eða þessum fjárlagaliðum. Sumt með málefnalegum hætti eða ekki, kannski eru það kjarasamningar, áhætta þar, það er kannski óhjákvæmilegt og varasjóður er til að glíma við það. En það eru ýmis önnur atriði, t.d. varðandi lyf. Við vorum að bæta við heilum hellingi í það og samt er mögulega áhætta á að sá liður fari fram úr. Mjög áhugavert.

Nú er talað um í lögum um opinber fjármál að við verðum að setja okkur markmið. Stjórnvöld setja ákveðin markmið um að ná þessum og hinum árangri. Það er t.d. talað um að minnka veikindahlutfall starfsmanna á Landspítalanum eða auka hlutfall hjúkrunarfræðinga sem eru á vöktum og þess háttar. En það er ekkert talað um það hversu mikið það á að kosta. Þá spyr maður: Er hætta á því að við munum ekki ná þessum markmiðum? Þá klórar ráðuneytið sér í hausnum og hefur ekki hugmynd um það. Þá vitum við að það mun vanta pening, en pening fyrir hverju? Mun vanta pening til að ná þessum árangri eða var þessum árangri aldrei ætlaður í rauninni peningur? Gott dæmi um það er t.d. málið um Landhelgisgæsluna sem við vorum að fá í hendurnar rétt eftir áramót. Í fjármálaáætlunum hefur sífellt verið gerð áætlun um aukna viðbragðsgetu Landhelgisgæslunnar á íslensku yfirráðasvæði. Hún var um 50% árið 2017. Það var gert ráð fyrir því að árið 2023 ætti hún að vera 95%, viðbragðsgeta innan sex klukkustunda. Næsta ár er hún ekki lengur 50% eða 49% eða hvað sem það var nú heldur er hún komin niður í 20%. Samt er markmiðið enn þá 95%. Hver er staðan í dag? Staðan 2021, fyrir síðustu fjármálaáætlun, var 8,5% viðbragðsgeta innan sex klukkutíma þrátt fyrir fjárheimildir sem væntanleg áttu að styðja við markmiðið. Nýtt markmið er ekki 95% á þessu ári, heldur 25–30% viðbragðsgeta. Það kostar væntanlega að hækka viðbragðsgetu úr 8,5% upp í 20–30%. Ef það á ekki að selja flugvélina, mun það nást? Hef ekki hugmynd. Ætti ekki áhættumat á framkvæmd fjárlaga að skila sér í lokafjárlögin eða í rauninni ríkisreikninginn? Í þessum ríkisreikningi þá er í rauninni bara lagt mat á fjárhagslega stöðu ríkissjóðs og sagt að ríkisreikningurinn gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu ríkissjóðs en við höfum ekki hugmynd um það hversu áhrifaríkar þessar fjárheimildir sem við höfum sett í öll þessi fjárlög hafa verið. Við náðum ekki markmiðunum um viðbragðsgetu Landhelgisgæslunnar. Gefur þá þessi ríkisreikningur glögga mynd af stöðu ríkisins, öryggisáætlunum okkar í rauninni, öryggismála? Við vorum að fjalla um þjóðaröryggisstefnuna fyrr í dag. Hvers konar ríkisreikningur er það sem segir bara: Já, þið eydduð þetta miklum pening, það er rétt. Ekki: Hvaða árangri náðuð þið? Við höfum ekki hugmynd um það. Það tel ég vera mjög ámælisvert. Ég velti fyrir mér hvort í nýjum lögum um opinber fjármál eigi Ríkisendurskoðun ekki líka að skoða þessi markmið og mælikvarða sem settir eru fram í fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpi með tilliti til ríkisreikningsins. Ég myndi halda að það hljóti að þurfa, það séu ekki bara ársskýrslur ráðherra sem gefi gul, rauð og græn ljós á einhverja mælikvarða hingað og þangað sem eru mjög ómarkvissir, höfum við frétt af öllum þessum heimsóknum sem ráðuneytin hafa komið í. Þegar við spyrjum: Hvað með þetta? Þá er svarað: Nei, þetta er ekki alveg þannig, það er erfitt að mæla þetta og þetta er allt rosalega flókið og það er ekki hægt að gera nákvæmar áætlanir, alls konar svoleiðis. En ef það er ekki gert þá verðum við aldrei betri í því, þá verðum við aldrei nákvæmari. Það má vera ónákvæmur. Það er allt í lagi. Við fáum ríkisreikning í lok árs sem segir okkur hver nákvæma niðurstaðan var og hann ætti að segja okkur líka hver áhrifin voru af því að veita fjárheimildir í hin ýmsu verkefni af því að við viljum öll nota fjárheimildir, skattfé, á ábyrgan og jákvæðan hátt.

Ég held að það þurfi ákveðið hugrekki hjá stjórnvöldum til að horfast í augu við það að stundum eru hugmyndir þeirra einfaldlega ekki að skila sér eins og þau vonuðust til. Það er allt í lagi. Þannig virka áætlanir, svo lengi sem þær eru gerðar á heiðarlegan hátt, með kostnaðarmati, ábatagreiningu og áhættugreiningu og forgangsröðun. Þá liggur það allt fyrir. Svo getur það misheppnast. Það er allt í lagi, það má, en ef ekkert svoleiðis liggur fyrir þá ber heldur enginn ábyrgð. Þá getur enginn sagt. Já, við gerum betur næst af því að nú vitum við meira, nú kunnum við meira. Hugmyndin sem við byrjuðum á virkaði ekki alveg en við áttuðum okkur á því af hverju og hvað við getum gert betur í staðinn í næstu fjármálaáætlun. Það er, held ég, leiðin sem við þurfum í alvörunni að fara, ekki bara af því að það stendur í lögum um opinber fjármál að það eigi að gera þetta þannig heldur af því að það er í alvörunni gáfulegt.

Ég held að slík notkun á opinberu fé sé eitthvað sem ekkert okkar sé ósammála. Ég held að við getum öll verið sammála um að við viljum nota skattfé á ábyrgan hátt. Við viljum að þegar við leggjum til einhver verkefni eða hugmyndir og átaksverkefni að þau skili í alvörunni árangri sem við getum þá montað okkur af, fyrr mætti nú vera. En til þess að geta montað sig af því þá þarf í alvörunni að vera hægt að sýna fram á það og hingað til hefur það ekki verið þannig því að það vantar allt kostnaðarmat, vantar alla ábatagreiningu, vantar alla forgangsröðun. Fyrir vikið er lokareikningurinn, ársreikningur ríkisins, í rauninni þeim mun fátækari.