133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[20:51]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Því er til að svara að vissulega kemur ríkið víða að ferli þessara mála og mun gera áfram, eins og reyndar kom fram í fyrri ræðu minni í dag. Það veitir rannsóknarleyfi. Það veitir nýtingarleyfi, starfsleyfi. Það þarf að taka þátt í margs konar fyrirgreiðslu, upplýsingamiðlun og samningagerð að sjálfsögðu. Meðal annars er það vegna þess að fyrirtæki sem eiga í hlut leita eftir því þegar mál eru í undirbúningi og þegar mál eru komin á rekspöl. Vissulega er aðkoma ríkisins og ríkisvaldsins í skipulagsyfirvöldum, Umhverfisstofnun og fleiri slíkum stofnunum, eins og greinilega kemur fram í frumvarpinu sem hér er til umræðu.

En það er hins vegar alveg rétt, og ég ítreka það líka sem ég sagði áður, að við höfum gert ráð fyrir því að nálgast almenn viðskiptaleg sjónarmið og viðskiptalegt umhverfi á þessu sviði eins og öðrum í þjóðfélaginu. Ég vísa um það að öðru leyti til ágætra ummæla hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar hér áðan.

Þar koma þá til fjárfestarnir, fyrirtækin sjálf, jarðeigendur þar sem um einkaeignir er að ræða og sveitarstjórnir eins og frægt er í landinu einmitt þessa dagana.