133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[20:55]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sagði í ræðu sinni áðan að hann vonaðist til þess að þjóðin hefði hlustað á þessar ræður því að það boðaði ekki gott ef menn með þessi viðhorf kæmust til valda. Nú skal ég trúa hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrir þeim leyndu hugsunum mínum að ég held að þessir menn komist til valda. Ég vil þess vegna upplýsa hann um það, ef hann verður ekki þáttur af þeirri deilingu valda sem verður eftir næstu kosningar, að sú stefna sem Samfylkingin hefur lagt fram — sem ég heyri ekki betur en að stjórnarandstaðan öll deili — tekur þvert á móti á öllum þeim málum sem við höfum verið að ræða. Við erum að leggja það til að réttur náttúruverndar verði tryggður í allri skipulagningu á landi. Við erum að leggja það til að gert verði sérstakt átak til að draga úr losun skaðlegra gróðurhúsalofttegunda og við erum að leggja það til að verndun tiltekinna svæða, sem við höfum nefnt alveg sérstaklega, verði tryggð.

Við erum ekki að segja það, við í Samfylkingunni, að við séum í prinsippinu á móti stóriðju sem framleiðsluformi. Við erum einungis að segja að við teljum að á þessu stigi sé nauðsynlegt að slá á frest allri stóriðju. Við erum að segja að þann tíma sem fresturinn varir eigum við að nota til að gera rammaáætlun um náttúruvernd. Þegar því skeiði lýkur og þegar sú vinna liggur fyrir getum við, á grundvelli þeirra gagna sem þá liggja fyrir, hugsanlega tekið ákvörðun um það hvort við ætlum að ráðast í einhverja stóriðju.

Í þessu felst líka að ekki er verið að fresta sérstaklega þeim tilteknu stóriðjuáformum sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og ríkisstjórnin virðist bera fyrir brjósti. Við erum ekki að segja að það sé algjörlega í gadda slegið að þegar frestinum ljúki verði þráðurinn tekinn upp aftur. Við munum hins vegar taka slíkar ákvarðanir á grundvelli þessarar rammaáætlunar um náttúruvernd og hið sama gildir um aðrar framkvæmdir, eins og t.d. Kjalveg eða vegagerð yfir hálendið.

Rammaáætlun af þessu tagi er algjör grundvöllur þess að við tökum frekari ákvarðanir sem geti leitt til einhverra óafturkræfra náttúruspjalla. En ég ligg ekkert á því að ég er þeirrar skoðunar að það eigi t.d. alls ekki að ráðast í stækkun stóriðjuversins í Straumsvík. Það byggist ekki á viðhorfum mínum til stóriðju heldur er ég einfaldlega þeirrar skoðunar að slíkur atvinnurekstur eigi ekki til frambúðar heima inni í miðjum bæ. Það svæði sem Straumsvík er á, eða álverið, verður innan skamms komið inn í miðjan bæ, er það eiginlega nú þegar. Þetta er sjónarmið sem mjög margir deila sem að öðrum kosti eru ekkert endilega á móti stóriðju sem framleiðsluaðferð. Ég hef þetta viðhorf og ég held að mjög margir, líka í því sem eftir lifir af flokki hæstv. ráðherra og í stjórnarliðinu, séu þessarar skoðunar Ég spái því að Hafnfirðingar muni leysa þetta vandamál fyrir mig og hæstv. ráðherra.

Í mál iðnaðar- og viðskiptaráðherra hér í dag finnst mér algjörlega skorta að hann sýni fram á nauðsyn þess að ákveða þetta mál núna. Það eru einungis þrír mánuðir til kosninga. Ef þetta mál á að verða til þess að skapa einhvers konar þjóðarsátt, af hverju leyfir hann þá ekki þjóðinni að kveða upp sinn dóm um það hvort í þessu felist sátt í kosningum? Er það ekki lýðræðisleg aðferð? Ég hefði talið það, herra forseti. Það er heldur ekki að finna neitt í máli hæstv. ráðherra sem bendir til þess að brýn efnahagsleg nauðsyn reki á eftir því að menn kasti burt þeim sáttamöguleika sem hér hefur verið nefndur, þ.e. stóriðjufrestinum. Hvaða útlát eru fólgin í því af hálfu ríkisstjórnarinnar? Það er hugsanlegt að á þessum fimm árum hefði ella verið ráðist í einhvers konar stóriðjuframkvæmdir en hæstv. ráðherra hefur málað það sterkari litum en nokkur annar í ræðum sínum í dag, að eftir því sem hann segir eru engar slíkar ákvarðanir uppi. Menn eru einungis að tala um það en hann segir sjálfur að langt sé í land með að einhverjar ákvarðanir verði teknar um það. Er hæstv. ráðherra þeirrar skoðunar að staða efnahagslífsins á Íslandi sé þannig að óhjákvæmilegt sé að ráðast í stórframkvæmdir af þessu tagi? Ef svo er þá er hann algjörlega ósammála t.d. hæstv. forsætisráðherra sem hefur talað á allt aðra lund.

Ástæðan fyrir hinum miklu deilum, sem hafa verið í samfélaginu, er sú staðreynd að fólk hefur það mjög sterklega á tilfinningunni að ekkert lát sé á stóriðjuofsanum. Á sl. vori, áður en hæstv. ráðherra steig í ríkisstjórn og tók við núverandi embætti, var Valgerður Sverrisdóttir, hæstv. utanríkisráðherra, í þeim stóli sem hann vermir í Stjórnarráðinu í dag. Hún talaði um það hátt og í hljóði að nauðsynlegt væri fyrir efnahagslífið að fá stóriðjuver, hún tiltók þrjá staði og hún sagði að það væri rúm fyrir þá alla. Þessu til viðbótar hafa ýmsir, sem tengjast stjórnmálaflokkum ríkisstjórnarinnar, nefnt tvo aðra kosti. Það er rætt fullum fetum í erlendum stórblöðum, sem eru að fjalla um stóriðju og deilur um stóriðju á Íslandi, að greinilega séu uppi tveir aðrir kostir fyrir utan þá þrjá sem hæstv. ráðherra segir nú að séu ekki nema rétt í augsýn.

Er þá nema von að menn vilji stinga við fótum og segja: Hingað og ekki lengra? Menn óttast að þau áform, sem þarna meira en glittir í, leiði til þess að ráðist verði með harkalegum hætti á náttúru Íslands. Menn vilja einfaldlega ekki láta það yfir sig ganga. Það er ástæðan fyrir hinum harkalega núningi sem hefur vaknað og það er t.d. ástæðan fyrir hinum harkalegu viðbrögðum við þeim virkjunum sem eru fyrirhugaðar í neðri hluta Þjórsár. Mönnum er einfaldlega ofboðið og það er fyrst og fremst Framsóknarflokkurinn sem hefur ofboðið fólki með málflutningi sínum. Það er fyrst og fremst hann sem hefur talað með þeim hætti að fólk hefur ærna ástæðu til að gruna að ríkisstjórn sem yrði áfram skipuð þeim tveimur flokkum sem nú sitja við völd mundi láta slag standa og ráðast í þessar framkvæmdir.

Hvað þýðir það fyrir aðrar atvinnugreinar? Það hefur enginn lýst því betur en hæstv. viðskipta- og iðnaðarráðherra, þegar hann var seðlabankastjóri, hversu illilega og grimmúðlega ruðningsáhrifin hafa leikið um aðra hluta atvinnulífsins á Íslandi. Sprotafyrirtækin stráfelld, þau sem voru hér að vaxa upp úr moldinni fyrir nokkrum árum og við töldum að yrðu að nokkrum árum liðnum að tiltölulega traustum og gildum meiðum, þau eru kyrkingslegur gróður í dag, þau eru að flýja til útlanda. Þau fyrirtæki eru að taka til fótanna undan þenslustefnunni sem birtist í stóriðjuofsa ríkisstjórnarinnar. Það er þetta sem menn óttast.

Við þurfum eins og allar aðrar þjóðir að leggja grunn að atvinnulífi framtíðarinnar. Hæstv. ráðherra sagði það hér í einni af fyrri ræðum sínum í dag að við ættum ekki að setja öll eggin í eina körfu. Það er það sem ríkisstjórnin virðist eigi að síður vera að gera með áherslu sinni á stóriðjuna. Við sjáum að á meðan aðrar þjóðir, sérstaklega vina- og frændþjóðir á Norðurlöndunum, eru að leggja mikla fjárfestingu í þekkingarframleiðslu og í hátækni er íslenska ríkisstjórnin á annað borð að tala um að það væri jákvætt að efla þær greinar atvinnulífsins en á hitt borðið er hún að grípa til aðgerða sem leiða hér til áframhaldandi þenslu, hávaxtastefnu, mikillar verðbólgu, óstöðugleika varðandi gengi krónunnar — og allt saman leiðir þetta til þess að mjög erfitt er fyrir þau sprotafyrirtæki sem við hefðum viljað gera að hinum sterku meiðum atvinnulífsins í framtíðinni að brjótast upp úr moldinni. Þetta er fórnarkostnaðurinn. Menn horfa líka til þess þegar þeir með miklum óvilja skoða þessi stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar.

Ef menn vilja sátt í málinu þá fresta þeir stóriðjuframkvæmdum, þá ráðast þeir í þessa rammaáætlun. Mig langar að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra — ég veit að hann hefur ekki tök á því að halda fleiri ræður en hann getur svarað mér í andsvari: Telur hann að nauðsynlegt sé fyrir hagkerfið og vöxt þess á næstu fimm árum að ráðist verði í stækkun álvers í Straumsvík og/eða álver í Helguvík? Þetta fýsir mig að vita. Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti, ef hann hefur tíma til þess, gefið mér rökin fyrir því. Af hverju er ekki í lagi að reyna að ná sáttum og friði í samfélaginu í kringum þetta mál með því einfaldlega að fresta stóriðjuframkvæmdum?