139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

dómstólar.

246. mál
[15:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vakti athygli á því að við erum í þeirri stöðu að við vitum að 1. mars verður fjöldi dómara ekki orðinn 12 í Hæstarétti og 48 í héraðsdómi. Athugasemd mín laut að því að það væri þá eðlilegra að hafa dagsetninguna í frumvarpinu í samræmi við veruleikann. Ég ætla ekki að gera það að neinu aðalatriði, en við skipun í fjöldamörg embætti og stofnun nýrra stofnana á vegum ríkisins er mjög oft farin sú leið sem gerð er í frumvarpinu að mælt er fyrir um að t.d. nýtt embætti eða ný stofnun skuli taka til starfa á tiltekinni dagsetningu fram í tímann. Gildistaka laganna er hins vegar ákveðin þegar í stað til að unnt sé að hefja nauðsynlegan undirbúning.

Það er langt í frá að vera aðalatriðið í málinu. Ég vakti athygli á því að að það er töluverður tími þangað til unnt verður að skipa nýju dómarana og þá væri eðlilegra að segja 1. apríl eða 1. maí þannig að það verði þá samræmi í því. Það er auðvitað ekki sambærilegt við það þegar um er að ræða endurnýjun í embættum þegar þau losna af einhverjum sökum. Þetta er ekki aðalatriði en ég sé ekki ástæðu til þess að hafa inni dagsetningu sem ég tel að muni ekki standast.