143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að tala um aðlögunarrökin, að um sé að ræða aðlögun en ekki samninga. Eftir þær umræður þykir mér ljóst að þau rök hunsa það að samningurinn er ekki samþykktur fyrr en í lok ferlisins. Hér er alltaf talað um að ekki sé hægt að kíkja í pakkann. Ég sé ekki betur en það sé hægt að kíkja í pakkann, eða alla vega sé hægt að haga málum þannig að það sé hægt. Sú hugmynd að það að slíta viðræðum núna ljúki málinu held ég að sé öfugmæli. Ég held að málið verði að eilífu bitbeini miklu frekar en ef við gerum einfaldlega hlé á viðræðum. Og ef það er enginn munur á því að slíta viðræðum og gera hlé, til hvers þurfum við þingsályktunartillögu? Það er hlé í gangi, það fór í gang fyrir kosningar.

Fólk er ekki að safnast saman hér fyrir utan vegna þess að gert var hlé á viðræðum við ESB. Fólk er ekki að safnast saman vegna þess að það vill ganga í ESB eða vegna þess að það vill alls ekki ganga í ESB, heldur vegna þess að það vill kjósa um það. Það vill kjósa um það vegna þess að þjóðin er almennt búin að fá nóg af því að fá ekki meira að segja um það hvernig landinu er stjórnað, sérstaklega þegar um er að ræða risastór málefni á borð við Evrópusambandið sem án undantekningar kemur hverju einasta mannsbarni á Íslandi við.

Það er ofan á þá staðreynd, og þá staðreynd ítreka ég, að því var lofað fyrir kosningar af forustumönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, í bloggfærslum og í umræðum, að þjóðin fengi að kjósa um það. Því var lofað af báðum flokkum. Það þýðir ekkert að þræta fyrir það. Það var þannig. Það er vegna þess að allir sáu fyrir fram og orðalagið var óljóst, það var loðið. Þess vegna voru menn spurðir. Þeir voru spurðir skýrra spurninga og skýrra svara var krafist og þau svör komu. Svörin voru þau að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið. Það eru kosningasvik að halda þá atkvæðagreiðslu ekki.

Það eru ekki venjuleg kosningasvik eins og það að lækka ekki skatta eða auka ekki útgjöld í heilbrigðisþjónustu eða eitthvað slíkt, það geta alltaf komið upp aðstæður sem gera slík loforð óframkvæmanleg. En hér er bara spurning um vilja og ekkert annað.

Það er þess vegna sem þjóðin er reið. Það er þess vegna sem mótmæli eru hér fyrir utan Alþingi fjórða daginn í röð. Undirskriftalisti er í gangi og var kominn upp í 15,5% kosningabærra manna síðast þegar ég athugaði, 15,6% núna; þetta eru 37.751 undirskrift til stuðnings því að fólk fái að kjósa um málið, til stuðnings því að þjóðin megi segja það sem henni finnst. Er ekki svolítið skrýtið að við þurfum að deila um það einfalda og sjálfsagða atriði dögum saman, með mótmæli fyrir utan, að þjóðin eigi landið, að þjóðin ráði þessu?

Nú yfir í rökin sem hæstv. ríkisstjórn notar ítrekað sem ég túlka á þann veg að hún sé að lýsa sjálfa sig vanhæfa til að gera einfalda hluti eins og að ráða fólk sem er reiðubúið til að vinna að hagsmunum okkar í gegnum viðræðuferlið. Er eitthvað því til fyrirstöðu að hæstv. ríkisstjórn ráði fólk, sem telur Íslandi best borgið innan Evrópusambandsins, til að vinna að þeim markmiðum? Það gleymist nefnilega alltaf að kosið verður um samninginn í lokin. Ef ekki er hægt að samhæfa sjávarútvegsstefnu okkar stefnu Evrópusambandsins verður svarið einfaldlega nei. Það er þess vegna sem skoðanakannanir virðast við fyrstu sýn misvísandi að því leyti að meiri hlutinn vill ekki ganga í ESB en meiri hlutinn vill kjósa um það. Það er vegna þess að við viljum sjá hvernig þetta endar, við viljum sjá hvað er í boði þegar búið er að ræða málið.

En nú ætlum við að hætta í miðjum klíðum. Svo dirfast hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans að láta sem svo að ef við sækjum um aðild sé það að sjálfsögðu til að ganga í sambandið. Ókei. Við skulum klára viðræðuferlið, ekki er skárra að hætta við í miðjum klíðum, hvað þá að slíta viðræðum, þ.e. á móti því að hafa hlé, þá er væntanlega hægt að taka viðræður upp aftur.

Það segir sig sjálft, með hliðsjón af loforði stjórnarflokkanna um að viðræðum verði ekki haldið áfram nema til þjóðaratkvæðagreiðslu komi, að þar er ekki verið að tala um slit, það er verið að tala um hlé, annars er ekkert að kjósa um, það er engin ástæða til að tala um þjóðaratkvæðagreiðslu um ákvörðun sem búið er að taka. Þá hefði loforðið verið svona: Við ætlum að slíta umræðunum, slíta samningaviðræðunum, og síðan halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja eigi um að nýju. Það er ekki það sem var lofað, rökleysan er algjör í málflutningi hæstv. ríkisstjórnar og þingmeirihluta.

Kannski er ekki mögulegt að ætlast til þess að hæstv. ríkisstjórn geti gert eins og henni er sagt, unnið að hagsmunum Íslands eftir að þjóðin hefur ákveðið að halda skuli áfram viðræðum við Evrópusambandið. Kannski er um góð og gild „realpólitísk“ rök að ræða. Gott og vel, þá skulum við samt halda þjóðaratkvæðagreiðslu til að vita hvað þjóðinni finnst þannig að flokkarnir viti alla vega hvaða lögmæti þeir hafa næst þegar hefja á umræður ef sú umræða kemur upp aftur. Kannski hafnar þjóðin því að halda áfram með umræðuna.

Hugsið ykkur ef við legðum þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu og fólk færi að tala um þetta efnislega og kæmist að þeirri efnislegu niðurstöðu að það væri sammála hæstv. ríkisstjórn um að það væri ekki góð hugmynd að halda viðræðunum áfram. Þá væri málið búið að eilífu. Að eilífu. Og Evrópusambandið horfið úr íslenskri stjórnmálaumræðu næstu áratugina. Væri það ekki svolítið gaman fyrir hæstv. ríkisstjórn?

Ég held að hæstv. ríkisstjórn óttist bara að það sé ómögulegt vegna þess að rökin eru ekki nógu góð fyrir því að slíta viðræðum. Kannski halda hlé, gott og vel. Við getum alveg rifist um það, en það að slíta viðræðum er röng stefna, alla vega virðist stjórnarmeirihlutinn telja óhugsandi að þjóðin gæti sannfærst af röksemdafærslu hæstv. ríkisstjórn. Kannski er það bara mjög lögmætur ótti.

Einnig hefur verið bent á að það gæti talist vanvirðing við sveitarstjórnarkosningar að halda þjóðaratkvæðagreiðslu á sama tíma. Gott og vel, höldum þá þjóðaratkvæðagreiðslu í ágúst. Þetta er smáatriði. Það er auðvelt að breyta þessu. Höldum bara þjóðaratkvæðagreiðslu í ágúst, fáum þetta á hreint, þá höfum við allt sumarið sem þjóð til að ræða málið með hliðsjón af þessari skýrslu og upplýstri umræðu almennings, þá getur þingheimur aftur komið hingað saman í september og unnið að málinu í samræmi við þjóðarvilja.