145. löggjafarþing — 70. fundur,  1. feb. 2016.

sala á hlut ríkisins í Landsbankanum.

[15:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Mér finnst stundum, þegar við ræðum hér í þessum sal um prinsipp-spurninguna, um hvort ríkið eigi að vera yfirgnæfandi á fjármálamarkaði á Íslandi eða ekki, að sumir forðist kjarna málsins og fari út um víðan völl. Mér finnst sumir — ég ætla ekki að segja að það sé einkennandi fyrir hv. þingmann — í þessari umræðu almennt vera að fiska í gruggugu vatni. Það er slegið úr og í.

Ég er með tiltölulega einfalda, skýra línu í þessu máli. Hún er þessi: Ég sé ríkið ekki fyrir mér sem aðaleiganda fjármálakerfisins á Íslandi til lengri tíma. Það er mín sýn. Svo eru aðrir hér í þingsalnum sem tala greinilega fyrir því að ríkið eigi að vera í yfirburðastöðu á fjármálamarkaði. En eins og sakir standa er ríkisstjórnin ekki með neitt annað á prjónunum en það sem hún tók í arf frá vinstri stjórninni, sem er að hefja sölu á eignarhlut í Landsbankanum. Það er skrýtið að hlusta á hv. þingmann sem kemur hér upp og segist mótfallin því að hluturinn sé seldur þegar hún sat í fjögur ár í ríkisstjórn þar sem lögð var á hverju ári fram tillaga um að hluturinn yrði seldur. Því ákvæði hefur í engu verið breytt af núverandi ríkisstjórn. Við tókum ákvæðið um að selt skyldi í Landsbankanum í arf frá fyrri ríkisstjórn. Við erum að fylgja þeirri stefnu.

Nú er það svo að það hefur ekki komið fram tillaga enn þá frá mér til þingsins um söluna. En það ætti að svara sér sjálft þegar spurt er: Er ekki slæmt að selja þegar við fáum lágt verð? Er ekki vont að selja þegar það er offramboð af hlutabréfum í bönkum? Eigum við nokkuð að vera að selja ef við þurfum að gefa hlutinn? Að sjálfsögðu ekki. Að sjálfsögðu mun ríkisstjórnin ekki beita sér fyrir sölu á eignarhlutnum nema að markaðsaðstæður séu réttar. En hún er í prinsippinu þeirrar skoðunar að það eigi að losa um hlutinn (Forseti hringir.) og borga upp skuldir. Og talandi um arð er það að sjálfsögðu þannig, og það liggur fyrir, að það mun þurfa að tappa af Landsbankanum og þess vegna líka Íslandsbanka tugum milljarða áður en til sölunnar kemur.