145. löggjafarþing — 70. fundur,  1. feb. 2016.

sala á hlut ríkisins í Landsbankanum.

[15:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég veit í sjálfu sér ekkert hverjir þessir sumir eru sem hæstv. ráðherra talar um. Ég hef lýst þeirri skoðun hér, þrátt fyrir heimildarákvæði í tíð síðustu ríkisstjórnar, að ég telji mjög skynsamlegt að horfa til lengri tíma með breytta stefnu hvað varðar fjármálakerfið.

Ég held að þar þurfum við að taka dálítið nýja hugsun. Þegar við ræðum um samfélagsbanka þá þýðir það ekki bara ríkisbanki, eins og við hæstv. ráðherra höfum rætt aðeins, það þýðir líka banki sem horfir til annarra sjónarmiða. Við getum nefnt byggðasjónarmið, við getum nefnt loftslagsmarkmið sem við ætlum að ná fram sem verður ekki náð fram nema með aðkomu fjármálakerfisins. Það er þörf fyrir breytta hugsun í fjármálakerfinu og við höfum stöðu til þess núna að innleiða þá breyttu hugsun.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra segir hér að ekki sé ætlunin að selja á undirverði. Ég held að við þurfum að horfast í augu við það að meðan offramboð er, getum við sagt, á íslenskum bönkum þá er hætta á að verðið verði ekki jafn hátt og raunin gæti orðið.

Mig langar að lokum að spyrja hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra. Hann segir að málin muni koma fyrir þingið. En það er fyrst og fremst, ekki satt herra forseti, í formi kynningar? Hyggst hæstv. ráðherra beinlínis leggja þessa tillögu fyrir þingið í ljósi þess að heimildarákvæðið er inni?