146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

styrking krónunnar og aðgerðir Seðlabanka.

[10:45]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Ráðherra lýsti um helgina áhyggjum sínum vegna styrkingar krónunnar. Það þarf að sjálfsögðu ekki að koma svo ýkja á óvart. Tekjur fyrirtækja í útflutningi hrynja, en að sama skapi eru aðföng að utan ódýrari og það kemur auðvitað neytendum til góða. Staðan er því súrsæt. Seðlabankinn sendi frá sér tilkynningu í fyrri viku þar sem segir, með leyfi forseta:

„Umfangsmikil gjaldeyriskaup bankans á undanförnum árum hafa leitt til mikillar stækkunar forðans sem gerir það að verkum að ekki er þörf fyrir þessi reglulegu kaup um þessar mundir. Þeim verður því hætt frá og með næstu viku.“

Fyrir leikmann virðist þessi ráðstöfun harla sérstök. Hafi verið ástæða til að sporna við of háu gengi krónunnar með reglubundnum kaupum á gjaldeyri virðist þörfin ærin nú. Í morgun berast svo fréttir af því að erlendir aðilar séu byrjaðir að fjárfesta í ríkisskuldabréfum á ný en þau kaup stöðvuðust alfarið þegar Seðlabankinn virkjaði sérstakt fjárstreymistæki í júní 2016 eftir að við höfðum samþykkt það hér á þinginu. Segir í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag að heimildir séu fyrir því að erlendir fjárfestingarsjóðir hafi fjárfest fyrir nokkra milljarða til viðbótar í ríkisskuldabréfum það sem af er þessum mánuði.

Í ljósi þess hversu gríðarlega krónan hefur styrkst langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála Seðlabankanum um að nú sé rétti tíminn til að hætta reglulegum kaupum á gjaldeyri.

Í öðru lagi langar mig að spyrja ráðherra hvort hann telji að gengið muni hætta að styrkjast ef Seðlabankinn dregur úr kaupum á gjaldeyri.

Í þriðja lagi langar mig að spyrja ráðherra hvort hann telji að vaxtamunarviðskipti hafi átt drjúgan þátt í að efnahagslífið á Íslandi fór á hliðina haustið 2008 og hvort hann telji ástæðu til að grípa til aðgerða til að sporna við þessum viðskiptum sem nú eru aftur hafin.