146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferð hans á þingmálinu sem hann hefur flutt hér. En mig langar að spyrja þingmanninn út í breytingartillögur sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð stendur hér að þar sem hann gagnrýnir öðrum þræði framsetningu fjármálaáætlunar, sem við í stjórnarmeirihlutanum höfum reyndar líka gagnrýnt. Við reyndum reyndar að bæta úr því og bættum úr því með því að gera þarna breytingar á. En þegar ég les þessa breytingartillögu verð ég fyrir miklum vonbrigðum því að gagnsæi hennar er afskaplega lítið. Hér er hreinlega bætt við nýjum lið, tillaga um að bæta við nýjum lið, nýjum sköttum upp á 53,4 milljarða 2018 o.s.frv., eins og rakið er í textanum sem hér fylgir með. Og síðan er hreinlega bætt við nýjum lið til útgjalda. Ég er engu nær um hvaða skattar og hvaða útgjöld þetta eru. Ég vil biðja hv. þingmann um að gefa okkur smá vísbendingar um það hvaða skatta á að hækka.