146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg hárrétt lýsing hjá hv. þingmanni að þessi ríkisfjármálaáætlun er hugmyndasnauð. Meginhugmyndin er sú að draga saman í samneyslunni. Það þýðir auðvitað að það verða alls konar verkefni sem þarf að vinna, alls konar hlutir sem samfélagið þarf samt á að halda, en það verður þá að fjármagna þá einhvern veginn öðruvísi en í gegnum samneysluna.

Þá kemur aftur að því að vera hugmyndasnauður: Þá er stutt í að fara í einkavæðingu eða selja ríkiseignir og búa þannig til stundarhagnað. Eitt af því sem fram kemur í nefndaráliti frá 1. minni hluta hv. fjárlaganefndar um fjármálaáætlun að talað er um að einkavæða Keflavíkurflugvöll.

Ég tek svo sannarlega undir að þessi fjármálaáætlun er hugmyndasnauð og virðist litið á þá sem bagga sem þurfa að treysta á velferðarkerfið. Það er gert að þeirra persónulega vandamáli í staðinn fyrir að reyna að skoða það í stóru samfélagslegu samhengi hvað það sé við íslenskt samfélag sem geri það að verkum að svo margir detta út af vinnumarkaði. Þar held ég að við þurfum að hugsa hlutina öðruvísi því að það er ekki nóg að ætla bara að breyta þessum einstaklingum, það er kerfið sjálft, eitthvað á vinnumarkaðnum, sem þarf að breyta, eitthvað í samfélaginu sem þarf að breyta. Þar verðum við að hugsa hlutina upp á nýtt því að það myndi gagnast einstaklingunum og samfélaginu öllu. Þar með komumst við eitthvað fram á veginn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)