149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

staða ferðaþjónustunnar.

[14:17]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ferðamálaráðherra fyrir að taka þátt í umræðu um stöðu ferðaþjónustunnar. Eins og hefur komið fram í fréttum á síðustu vikum eru blikur á lofti í greininni af ýmsum ástæðum og stefnir í fækkun erlendra ferðamanna á Íslandi á árinu 2019 í fyrsta skipti í fjölda ára.

Ferðaþjónusta á Íslandi er löngu orðin stærsta útflutningsgrein Íslendinga og hefur sömuleiðis skapað mikinn fjölda starfa á síðustu árum. Það er því ljóst að ferðaþjónustan skiptir verulegu máli í íslensku efnahagslífi. Reyndar hafa margir gengið svo langt að segja að ferðaþjónustan hafi í raun bjargað Íslendingum út úr síðasta efnahagsvanda. Auðvitað hafa ýmis vandamál fylgt jafn örum vexti og ferðaþjónustan á Íslandi hefur verið í en tækifærin hafa einnig verið fjölmörg. Hingað til hefur okkur heppnast ágætlega að grípa þau en eins og ég nefndi eru blikur á lofti.

Fram kom á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar með Seðlabanka Íslands í síðustu viku að horfur um vöxt útflutnings hafa versnað, en þar hefur samdráttur í flugþjónustu töluverð áhrif. Þá hefur óvissan um rekstur flugfélaganna einnig haft áhrif og gerir Isavia ráð fyrir um 12% fækkun í komum erlendra ferðamanna til landsins á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs frá sama tíma í fyrra og að þeim fækki um 2,4% á árinu í heild. Nú þegar er ljóst að spá Isavia stenst ekki en 5,5% færri erlendir farþegar fóru í gegnum Keflavíkurflugvöll en búist var við nú í janúar.

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að ferðaþjónustan geti mætt samdrætti í komu ferðamanna til Íslands í eitt ár. Þó er ljóst að fyrirtækin í ferðaþjónustu þola mörg hver ekki miklar launahækkanir og enn veldur gengi íslensku krónunnar vandræðum. Það er margt fleira sem vekur áhyggjur. Til að mynda hefur eftirspurn eftir Íslandi sem áfangastað verið að minnka og minna um að leitað sé að Íslandi á leitarsíðum eins og Google. Þá hjálpa ákvarðanir hæstv. ríkisstjórnarinnar um áframhaldandi hvalveiðar ekki.

Sú staðreynd vekur áhyggjur að vegna ytri aðstæðna gengur mun hægar eða jafnvel aftur á bak í einhverjum dæmum að auka dreifingu ferðamanna um Ísland, sem er nokkuð sem við ættum að geta breytt auðveldlega með opnun fleiri gátta inn til landsins en sömuleiðis með aukinni markaðssetningu landshlutanna og annarri uppbyggingu innviða.

Í því samhengi langar mig að minna á fyrirspurn varaþingmanns Samfylkingarinnar, Maríu Hjálmarsdóttur, til hæstv. ferðamálaráðherra um markaðssetningu áfangastaða á landsbyggðinni og hlutverk markaðsstofa landshlutanna frá 25. október sl. en þeirri fyrirspurn er enn ósvarað.

Það er margt fleira sem þarf að vinna í og vinna að. Til að mynda þarf að vinna gegn svartri ólöglegri starfsemi, gegn þeim sem greiða ekki skatta og skyldur og stunda jafnvel félagsleg undirboð sem og að tryggja að samkeppnisstaða ferðaþjónustuaðila sé ekki skökk, t.d. þegar kemur að gistiþjónustu.

Í því samhengi er ástæða til að velta því upp hver árangurinn sé af núverandi stoðkerfi. Stöndum við okkur í því í að styðja við þessa atvinnugrein á sama hátt og hefur t.d. verið gert við sjávarútveginn? Sömuleiðis hljótum við að þurfa í ljósi þjóðhagslegs mikilvægis ferðaþjónustunnar að fylgjast betur með hagtölum greinarinnar og gera betur grein fyrir þeim í þjóðhagsspá og öðrum peningaspám.

En það er alls ekki þannig að allt sé svart, raunar þvert á móti. Hér hefur byggst upp sterk og öflug atvinnugrein með fjölbreyttum störfum sem afla mikilla gjaldeyristekna og hefur sannarlega tækifæri til að gera svo áfram. En við þurfum að hlúa að greininni, sérstaklega þegar svona stendur á.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Til hvaða aðgerða og ráðstafana telur ráðherra að fara ætti í til að efla ferðaþjónustuna í ljósi þeirra áskorana sem greinin stendur frammi fyrir? Telur hæstv. ráðherra ástæðu til að styrkja enn frekar vinnu landshlutana við að efla markaðssetningu þeirra á uppbyggingu innviða? Að lokum: Hver er stefna ráðuneytisins hvað varðar starfsemi erlendra fyrirtækja í ferðaþjónustu á Íslandi?