149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

staða ferðaþjónustunnar.

[14:22]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að hafa frumkvæði að þessari umræðu um stöðu ferðaþjónustunnar. Það er alveg rétt að vissulega eru blikur á lofti í þeim efnum. Samkvæmt farþegaspá Isavia fækkar erlendum ferðamönnum um rúmlega 2% á árinu og fyrstu tölur reyndust vera töluvert verri en spáin. Verulega hefur dregið úr flugframboði og óvissa ríkir áfram í þeim efnum og aðgerðir á vinnumarkaði sem beinast nú sérstaklega gegn ferðaþjónustu koma ofan í þessa stöðu.

Ferðaþjónustan er sveiflukennd atvinnugrein í eðli sínu og þróun hennar ræðst af mörgum utanaðkomandi þáttum sem stjórnvöld geta ekki alltaf haft áhrif á, til að mynda stjórnmála- og efnahagsástandi í öðrum löndum, heimsmarkaðsverði á olíu og slíkum þáttum. Þrátt fyrir að blikur séu á lofti um þessar mundir eru langtímahorfur í greininni góðar. Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna spáir áframhaldandi vexti í alþjóðlegum ferðalögum. Langtímaspár stofnunarinnar gera ráð fyrir að árlegur vöxtur verði að meðaltali 3,3% fram til ársins 2030. Ímynd Íslands er sterk og alþjóðlegir straumar og stefnur styðja við áframhaldandi vinsældir landsins sem ferðamannastaðar. Fólk sækir í auknum mæli í náttúruupplifanir á norðurslóðum, ævintýralegar upplifanir og örugga áfangastaði, ásamt upplifunum tengdum heilsu og vellíðan.

Þegar spurt er um aðgerðir til að efla greinina liggur alveg fyrir hverjar okkar áherslur eru til að styrkja og efla greinina og við höldum okkar striki í þeim efnum. Vegvísir í ferðaþjónustu 2015–2020 varðaði veginn og er enn í fullu gildi. Vegvísir er verkefnalisti og það gengur hratt og örugglega á hann í góðu samstarfi stjórnvalda, sveitarfélaga og greinarinnar. Uppbygging innviða er miklu meiri og markvissari en við höfum áður séð. Þjóðgarðarnir eru að styrkjast. Öflun gagna og aðgengi að þeim er miklu betra en áður. Áfangastaðaáætlanir landshlutanna eru komnar til sögunnar. Við erum að styrkja rannsóknarhlutverk Ferðamálastofu. Öryggiskröfur hafa verið auknar. Flugþróunarsjóður er farinn að skila áþreifanlegum árangri í beinu flugi til Akureyrar. Átak hefur verið gert í eftirliti með heimagistingu til að draga úr misnotkun á deilihagkerfinu á kostnað löglegs atvinnurekstrar og svona mætti lengi telja. Þetta eru ekki neyðarráðstafanir heldur eðlileg uppbygging á umhverfi einnar stærstu og mikilvægustu atvinnugreinar okkar.

Fyrirspyrjandi nefnir landsbyggðina í þessu sambandi. Því er til að svara að landsbyggðin er eins og við vitum lykilþáttur í okkar aðgerðum. Innviðauppbyggingin, Flugþróunarsjóður, samningar við markaðsstofurnar, landshlutaáætlanirnar — allt miðar þetta sérstaklega að landsbyggðinni. Þá er verið að setja aukinn kraft í vegagerð sem er auðvitað nauðsynleg forsenda fyrir þessu markmiði.

Varðandi starfsemi erlendra fyrirtækja í ferðaþjónustu á Íslandi er ljóst að fyrirtækjum frá Evrópska efnahagssvæðinu er almennt frjálst að starfa hér. Erlendum fyrirtækjum er þó að sjálfsögðu skylt að starfa eftir þeim lögum og reglum sem hér gilda. Fjármálaráðuneytið hefur greint ágætlega reglur um skattskyldu þessara aðila en sú mynd er ekki alveg einföld og það er engin launung á því að við getum gert mun betur í að fylgja reglunum eftir, með eftirliti og mögulega líka með hertum viðurlögum. Samtök ferðaþjónustunnar hafa nýlega kynnt fyrir mér athugun á þessum málum sem ég fagna og mun taka til vandlegrar athugunar þegar þeirri vinnu er lokið. Það sem skiptir líka máli er að greina vel hvað má, hvað fylgir EES-samningnum og hvaða starfsemi við horfum upp á sem er ekki samkvæmt lögum og þarf þá að efla eftirlit í kringum og/eða mögulega herða viðurlög þannig að það kosti að fylgja ekki reglum í þessu samfélagi.

Í þessu sambandi langar mig líka að nefna að ráðuneytið er í samstarfi við OECD um svokallað samkeppnismat á ferðaþjónustu sem atvinnugrein. Það er risastórt verkefni, fjármagnað, sem gengur út á að bæta starfsumhverfi greinarinnar til framtíðar.

Virðulegur forseti. Mig langar að lokum segja að það er ekki rétt, sem stundum er haldið fram, að Ísland hafi ekki stefnu í ferðamálum. Í gildi er þingsályktun um ferðamálaáætlun til 2020 og Vegvísir gildir sömuleiðis til 2020. Við höfum nú hafið endurskoðun á langtímastefnunni á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála. Fyrstu skrefin eru að móta framtíðarsýn og leiðarljós og samhliða því að framkvæma ítarlegt álagsmat á innviði sem er vel á veg komið.

Ég þakka aftur fyrir umræðuna og ég hlakka til að hlýða á þingmenn og mun bregðast við því sem hér kemur fram í seinni ræðu þó að stutt verði. Að lokum langar mig að segja að hér er um að ræða grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar sem við verðum að standa vörð um og styrkja og efla, en gæta þess að það sé gert á forsendum sjálfbærni. Og af því að hér var líka nefnd markaðssetning finnst mér skipta máli að við horfum til þess að hin opinbera markaðssetning vegur alltaf minna og minna í stóra samhenginu. Það eru 2,2 milljónir ferðamanna eða hvað þær eru og verða sem sjá alltaf meira og meira um markaðssetningu á Íslandi. Ég kem inn á fleiri þætti í seinni ræðu minni.