149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

staða ferðaþjónustunnar.

[14:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka upphafsmanni þessarar umræðu og hæstv. ráðherra fyrir að vera hér. Ferðamennskan er okkar stærsti atvinnuvegur, það hefur komið hér fram. Það bendir ekkert sérstaklega til þess að vá sé fyrir dyrum með fjölda farþega sem voru 2,3 milljónir milli febrúar 2018 og janúar 2019. Ísland er hvarvetna með helstu áfangastöðum heims á helstu miðlum í heiminum, CNN og fleiri.

Hlutverk ríkisins er að skapa almenna umgjörð um þennan atvinnuveg og skýrar leikreglur. Eins og allir vita fór t.d. eftirlit með óskráðri gistingu fyrst af stað fyrir hálfu ári og boðað er að það sérstaka átak hætti núna um mitt ár, sem er náttúrlega galið. Gististaðir sitja ekki við sama borð vegna þess að annar hlutinn greiðir öll gjöld en hinn ekki eins og fram hefur komið, líklega stærsti einstaki þáttur svarts hagkerfis á Íslandi. Auðvitað þarf að taka á þessu og halda eftirlitinu áfram þannig að menn sitji við sama borð. Það þarf líka að gera átak með alþjóðaflugvellina okkar, sérstaklega Akureyri og Egilsstaði sem eru líka varaflugvellir fyrir Keflavíkurflugvöll og eru ekki bara til þess að dreifa ferðamönnum um landið heldur til að auka öryggi allra.

Það er heldur ekki sama hvernig við lítum á hlutina. Hótelnýting í janúar er t.d. 75% í Reykjavík en hún er 11,7% á Austurlandi. Auðvitað þurfum við að skapa skilyrði til að allt landið sé undir í þessu.

Að sjálfsögðu ítreka ég að ríkið eða ríkisstjórn á hverjum tíma verður að skapa hér almenn skilyrði. Og ég verð að segja að innslag ríkisins nú í skattamálum við gerð kjarasamninga er (Forseti hringir.) ekki til að hamla því að hér verði stórátök hjá lægst launaða fólkinu sem vinnur í ferðaþjónustunni, sem getur skaðað greinina mjög mikið.