149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég verð að sýna því skilning að hv. þingmaður skuli ekki leggja í að reyna að greina afstöðu Seðlabankans þó að hann birti hana í nefndaráliti sínu, heldur drepi málum á dreif með því að tala um að menn hefðu gjarnan viljað setja þetta mál á dagskrá í desember, það sé ekki bara Seðlabankinn, það sé fjármálaráðuneytið líka. Það kemur mér reyndar ekki á óvart, satt best að segja, að sú sé raunin, eins og kemur raunar fram í greinargerðinni.

En þegar þingmenn Miðflokksins uppgötvuðu það óvænt hér á síðasta degi þingstarfa í desember að hæstv. fjármálaráðherra vildi lauma þessu máli inn og í gegn, brugðust menn að sjálfsögðu við því. Þá má segja að fyrst hafi hringt viðvörunarbjöllum. Svo er það rétt að þingmenn sem höfðu hugsað sér að taka þátt í þessari umræðu náðu ekki að gera það í 1. umr. í janúar þegar málinu var í rauninni smeygt hér í gegn á meðan allsherjardellumakkerí var í gangi annars staðar í þinghúsinu út af allt öðrum málum. Þá aftur veltir maður fyrir sér tímasetningunni og hvernig að þessu var staðið. (Gripið fram í.)

Hvað sem því líður heyri ég að hv. þingmaður hefur ekki áhuga á að reyna að skilgreina sérstaklega eða útskýra þennan rökstuðning Seðlabankans og ég ítreka að ég sýni því alveg skilning. En maður fær ekki betur séð af þessu en að Seðlabankinn telji að aðstæður leyfi ekki alveg afléttingu hafta, nema hlutirnir gangi vonandi þannig að þeir sem hafa verið lokaðir inni í höftum muni vilja fjárfesta áfram eftir 10 ára bið í íslenskum ríkisskuldabréfum. Það finnst mér ekki traustvekjandi og ekki til þess fallið að reka á eftir því að þetta mál verði afgreitt.